Jöfnun námskostnaðar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:56:15 (1778)

1999-11-18 10:56:15# 125. lþ. 28.4 fundur 182. mál: #A jöfnun námskostnaðar# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta neinu við það sem ég sagði um samstarf Alþingis og ríkisstjórnar varðandi lokaafgreiðslu fjárlaga því að reynslan sýnir að þessi liður á fjárlögum hefur hækkað um 140% á liðnum árum og segir það sína sögu. Og það er á þeim árum sem ég hef starfað sem menntmrh. þannig að enginn þarf að draga í efa hug minn í því máli.

Ég skil að sjálfsögðu vel að hv. þm. sem sat í þeirri nefnd sem samdi þessar ágætu tillögur sé annt um að þær nái fram að ganga og að hann standi vörð um þær. Það er ekkert við það að athuga. Að sjálfsögðu tek ég undir með honum og forsrh. að við eigum að framkvæma þessar tillögur. Forsrh. hefur marglýst því yfir, eins og hv. þm. nefndi, þannig að ég þarf ekki að árétta það.

Ég vil aðeins segja að við í menntmrn. höfum m.a. látið vinna þá skýrslu sem menn lögðu til grundvallar. Eins og fram kemur í tillögu nefndarinnar er vísað til skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem menntmrn. lét vinna. Þar liggja fyrir mjög haldgóðar upplýsingar um alla einstaka þætti þessa máls sem eru forsendur þess að við getum tekið á þeim og lagt fram tölur eins og þá sem við heyrðum einnig að hv. þingmenn draga í efa að sé nógu há. Vafalaust finnum við aldrei þá fjárhæð í þessu sem menn telja að dugi til þess að ná þeim ágætu markmiðum sem við setjum okkur í þessu efni. En ég ítreka að ég er áhugamaður um að þessi munur verði jafnaður. Ef hægt er að gera það með fjárframlögum þá er það í sjálfu sér gott. En ég held að það þurfi að hafa í huga marga fleiri þætti þegar menn huga að þessu og skilgreina hvernig þeir ætla að bregðast við þeirri þróun á landsbyggðinni sem við sjáum því miður, að áhugi á því að fara þar í framhaldsnám er ekki alltaf nægilega mikill.