Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 10:58:25 (1779)

1999-11-18 10:58:25# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[10:58]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt á hv. Alþingi þáltill., borin fram af hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni og fleirum, þess efnis að Alþingi ályktar að hefja skuli hið fyrsta hvalveiðar hér við land. Svo sem menn ugglaust rekur minni til þá var og er enn umræða um þetta viðkvæm og málið er erfitt að mörgu leyti. Umræðan snertir sjálfs\-ákvörðunarrétt þjóða til að nýta auðlindir sínar og sjálfbæra þróun. Hana snerta efnahagsleg rök. Á móti þessu hafa menn bent á m.a. að hvalveiðar kunni að skaða viðkvæma markaði okkar, einkum fiskmarkaði erlendis og kunni að hafa skaðleg áhrif á ferðaþjónustu. En fyrst og fremst snýst þetta um sjálfstæði þjóða.

Á sínum tíma gengu Íslendingar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu þar sem talið var og var mat stjórnvalda á þeim tíma, að rödd Íslands og röksemdir fyrir hvalveiðum væru ekki virtar og því væri tilgangslaust að Ísland sæti áfram í Alþjóðahvalveiðiráðinu. Síðan er liðinn nokkur tími og sú ákvörðun var að sjálfsögðu umdeild á sínum tíma. En það er óhætt að segja að umræðan á alþjóðavettvangi hafi breyst hvað þetta varðar, ekki síst þar sem umræðan á alþjóðavettvangi hefur færst í vaxandi mæli í það horf að menn virða, að því er virðist, sjálfbæra þróun, sjálfbæra efnahagsstefnu einstakra þjóða.

Herra forseti. Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að undirbúa hvalveiðar með því m.a. að kynna málstað og sjónarmið Íslendinga á erlendum vettvangi meðal helstu viðskiptaþjóða. Það kunna því að finnast rök fyrir því að Íslendingar eigi að endurskoða afstöðu sína hvað varðar Alþjóðahvalveiðiráðið. Menn hafa velt þeirri spurningu upp hvort hyggilegt sé að skilja þar eftir fáar þjóðir hlynntar hvalveiðum, t.d. eins og Japani, og hvort ekki sé hyggilegra að Íslendingar láti í sér heyra, ekki síst í ljósi þess að viðhorf á alþjóðavettvangi hafa verið að breytast.

Herra forseti. Þess vegna beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. utanrrh. hvort hann telji koma til greina að Íslendingar sæki um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu.