Innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:01:17 (1780)

1999-11-18 11:01:17# 125. lþ. 28.5 fundur 87. mál: #A innganga í Alþjóðahvalveiðiráðið# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:01]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþingismönnum er kunnugt gengu Íslendingar úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1992. Þá var þannig komið að ráðið fór í engu eftir þeim tillögum sem komu frá vísindanefnd ráðsins og hafði í reynd breyst í friðarstofnun í stað þess að stjórna nýtingu hvalastofna í samræmi við stofnsamning Alþjóðahvalveiðiráðsins. Við höfðum þá vænst þess að fleiri ríki, sérstaklega Noregur, fylgdu í fótspor okkar og gengju úr ráðinu. Það gekk ekki eftir. Áður höfðu ríki gengið úr ráðinu, þar á meðal Kanada 1982. Nokkur ríki hafa gengið úr Alþjóðahvalveiðiráðinu og síðan gengið í það aftur. Það mun t.d. eiga við um Brasilíu, Holland og Noreg. Ásamt Norðmönnum, Færeyingum og Grænlendingum stofnuðum við svæðisbundin samtök til nýtingar sjávarspendýra í Norður-Atlantshafi, NAMMCO, Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið. Enda þótt margar þjóðir hafi þar áheyrnarfulltrúa hafa samtökin enn ekki orðið eins öflug og við vonuðumst til þegar við stofnuðum til þessa starfs en þessi samtök vinna ómetanlegt starf á sviði vísinda og rannsókna. Það eru væntingar bundnar við það að Rússar gangi í ráðið og við höfum lagt á það mikla áherslu og það ætti að skýrast áður en langt um líður.

Þótt við höfum gengið úr Alþjóðahvalveiðiráðinu höfum við fylgst vel með fundum þess sem áheyrnarfulltrúar. Vissar vonir eru bundnar við að með fjölgum ríkja í Alþjóðahvalveiðiráðinu, sem vilja nýta sjávarspendýr með sjálfbærum hætti, megi vænta einhverra breytinga á starfsemi ráðsins. Slíkar væntingar eru t.d. uppi hjá Japönum. Þetta er þó alls ekki sjálfgefið. Meðal annars þess vegna er mikilvægt að efla og styrkja starfsemi NAMMCO og fjölga aðildarríkjum eins og við höfum lagt áherslu á. Það er að mínu mati fráleitt að útiloka aðild okkar að Alþjóðahvalveiðiráðinu að nýju. Aðstæður geta breyst með ýmsum hætti. Eins og reglum er nú t.d. háttað er það forsenda þess að við getum selt öðrum þjóðum, eins og Japönum, hvalaafurðir, að við séum aðilar að Alþjóðahvalveiðiráðinu og Japanar hafa staðfest það í samtölum við mig og hæstv. sjútvrh. jafnframt. Því er svarið það að aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu getur mjög vel komið til greina en engin ákvörðun hefur verið tekin þar um.