Alþjóðlegur sakadómstóll

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:18:44 (1790)

1999-11-18 11:18:44# 125. lþ. 28.6 fundur 143. mál: #A alþjóðlegur sakadómstóll# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:18]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Samþykktin um alþjóðlega sakadómstólinn var var gerð í Róm 17. júlí 1998. Dómstóllinn sem á að hafa aðsetur í Haag hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem eru grunaðir um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

Rómarsamþykktin var undirrituð fyrir Íslands hönd 26. ágúst 1998. Við vorum því meðal fyrstu þjóða sem undirrituðu þessa samþykkt. Alls hafa 89 ríki undirritað samþykktina en aðeins fjögur ríki: Senegal, Trínídad og Tóbagó, San Marínó og Ítalía hafa fullgilt hana. Þessi samþykkt mun öðlast gildi tveimur mánuðum eftir að 60 ríki hafa fullgilt hann.

Norðurlöndin hafa haft með sér samráð um undirbúning fullgildingar Rómarsamþykktarinnar um alþjóðlega sakadómstólinn enda er málið bæði flókið og umfangsmikið. Samþykktin er alls 128 greinar. Í Noregi er gert ráð fyrir að þáltill. um fullgildingu Rómarsamþykktarinnar verði lögð fram á næstunni og samþykktin verði fullgilt næsta vor. Í Danmörku og Finnlandi er stefnt að því að leggja fram þáltill. næsta vor og gera ráð fyrir fullgildingu síðar á næsta ári. Í Svíþjóð er reiknað með því að þáltill. verði lögð fram haustið 2000 og samþykktin verði fullgilt síðar á því ári eða fyrri hluta árs 2001.

Unnið er að fullgildingu Rómarsamþykktarinnar í utanrrn. Fyrstu drög að íslenskri þýðingu samþykktarinnar liggja fyrir en fram undan er mikli vinna við að fullgera hana, semja og ganga frá till. til þál. um fullgildingu samþykktarinnar. Stefnt er að því að leggja tillöguna fyrir Alþingi á vorþingi. Ég vonast eftir því að við getum gert það en ég get ekki fullyrt það. Fullgilding Rómarsamþykktarinnar kallar síðan á löggjöf um framkvæmd hennar hér á landi og gerð frv. um það efni lýtur samkvæmt venju dómsmrn. en að sjálfsögðu munu utanrrn. og dómsmrn. hafa náið samstarf um þetta mál eins og öll önnur mál sem eru svipaðs eðlis.