Niðurstöður launakönnunar kjararannsóknarnefndar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:35:23 (1796)

1999-11-18 11:35:23# 125. lþ. 28.8 fundur 60. mál: #A niðurstöður launakönnunar kjararannsóknarnefndar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:35]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er okkur báðum væntanlega ánægjuefni, mér og hæstv. félmrh., að þessi fyrirspurn, blessuð, kemst nú loksins á dagskrá, en þar er við okkur báða að sakast, við höfum verið í önnum og ekki alltaf náð saman. Það er reyndar nokkuð síðan hún var sýnd hér í þinginu því að ég lagði sambærilega fyrirspurn fram á vorþingi í júnímánuði sl. Þá höfðu nýlega komið fram niðurstöður úr launakönnun sem sýndu allískyggilega hluti og staðfestu að ýmsu leyti að ákveðin þróun eða afturför réttara sagt er í gangi hvað varðar vaxandi launamun í landinu og þó sérstaklega kynbundinn launamun, þar sem staða kvenna er til muna lakari á vinnumarkaði en karla og laun til muna lægri fyrir sambærileg störf. Enn fremur sýna þessar kannanir, svo ekki verður um deilt, mikinn launamun milli svæða, og staðfestist þar enn það sem út af fyrir sig hefur verið vitað að laun víða á landsbyggðinni eru til muna lægri í sambærilegum greinum en á höfuðborgarsvæðinu. Vísbendingar úr þessum könnunum, síðustu launakönnunum kjararannsóknarnefndar og fleiri könnunum reyndar sem gerðar hafa verið á vinnumarkaðnum, sýna allar hreyfingu í sömu átt, þ.e. að þessi launamunur er að aukast, kynbundni launamunurinn er fastur í sessi ef ekki einnig að aukast og launamunur milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hefur aukist. Það mætti taka þar ýmis dæmi, herra forseti, úr síðustu launakönnun en tímans vegna verður ekki margt til tínt en þar má t.d. nefna þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk. Þar eru meðallaun á höfuðborgarsvæðinu fyrir dagvinnu á fyrsta ársfjórðungi 1999 114.691 kr. en á landsbyggðinni að meðaltali 104.000. Þetta er fyrir karla. Þegar litið er á konurnar þá eru laun kvenna á höfuðborgarsvæðinu í dagvinnu á fyrsta ársfjórðungi 1999 fyrir þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk 97.486 á móti 114.000 karlanna, en konur á landsbyggðinni eru með 85.933 á móti 104.000 karlanna á landsbyggðinni og 114.000 karlanna á höfuðborgarsvæðinu. Ef við berum þennan hóp saman, konur á landsbyggðinni og karla á höfuðborgarsvæðinu, og skoðun þann geigvænlega mun sem þar er á ferðinni þá sjáum við að hann er upp á tæpar 30.000 kr. og launamunur upp á 25--33%, eftir því hvor talan er tekin til viðmiðunar.

Herra forseti. Af þessum ástæðum hef ég lagt fyrir hæstv. félmrh. þessar spurningar:

,,Hver eru viðbrögð ráðherra við niðurstöðum nýjustu launakannana kjararannsóknarnefndar sem sýna mikinn launamun milli kynja og landsvæða?

Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar af hálfu hæstv. ríkisstjórnar?``