Niðurstöður launakönnunar kjararannsóknarnefndar

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:43:42 (1798)

1999-11-18 11:43:42# 125. lþ. 28.8 fundur 60. mál: #A niðurstöður launakönnunar kjararannsóknarnefndar# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:43]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Launakannanir hafa ítrekað staðfest rótgróinn launamun kynjanna. Í því sambandi vil ég nefna nýlega launakönnun sem Verslunarmannafélag Reykjavíkur birti en hún sýndi að 18% munur væri á launum karla og kvenna sem eru í sambærilegu starfi, með sambærilega ábyrgð, menntun, vinnutíma, starfsaldur og aldur. Sé það sett í annað samhengi þá þýðir þessi 18% launamunur að konan vinnur frítt í tvo mánuði á ári fyrir vinnuveitanda sinn í samanburði við karlinn.

Athugun VR benti jafnframt til þess að launamunur kynjanna er að aukast. Þær aðstæður eru nú í þjóðfélaginu að sérstaklega þarf að gæta að launajafnrétti kynjanna. Þar vil ég nefna tvo þætti. Það er þekkt fyrirbæri að laun karla hækka meira en laun kvenna á þenslutímum og liggja ýmsar ástæður þar að baki. Þá er ákveðin hætta á að nýtt launakerfi, bæði hjá hinu opinbera og á almennum markaði, leiði til aukins launamunar kynjanna þar sem til grundvallar launa\-ákvörðunum er lagt mat á einstaklinga. Það er þekkt fyrirbæri erlendis frá að slíkt launakerfi leiði til aukins misréttis og það er brýn ástæða til þess að vera vel á verði.