Fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:52:49 (1802)

1999-11-18 11:52:49# 125. lþ. 28.9 fundur 135. mál: #A fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Eins og hann gat réttilega um er tekið á þessu í stjórnarsáttmálanum og stjórnarflokkarnir hafa samþykkt að unnið skuli að því á kjörtímabilinu að breyta forsendum fyrir álagningu fasteignaskattsins þannig að tekið verði mið af raunverðmæti fasteigna alls staðar á landinu.

Ég skipaði nefnd í byrjun júní sl. og henni er falið að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga með það að markmiði að þeir séu á hverjum tíma í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum er lögskylt að sinna. Nefndinni er einnig ætlað að vinna að heildarendurskoðun á tekjustofnalögunum en síðasta heildarendurskoðun laganna fór fram fyrir tíu árum síðan. Nefndin er sem sagt að störfum og verkefnið er umfangsmikið og miklar væntingar eru gerðar til tillagna nefndarinnar. Það er ljóst að hún mun ekki ná að leggja fram fullmótaðar tillögur fyrr en um mitt næsta ár. Það þýðir að ekki verður hægt að leggja fram frv. á þessu þingi á grundvelli tillagna frá nefndinni.

Hv. fyrirspyrjandi spurði hvernig væri áformað að bæta sveitarfélögum tekjutapið af breyttri innheimtu fasteignagjalda. Ég tel að það sé ekki tímabært á þessu stigi málsins að ræða um aðgerðir til þess að bæta sveitarfélögunum upp þetta tekjutap, en það er vissulega fyrir hendi. Tekjustofnanefndin mun, eins og áður sagði, fjalla um það mál og koma með tillögur þar að lútandi því það er alveg óhjákvæmilegt að bæta sveitarfélögunum einhvern veginn upp það tekjutap sem þau yrðu fyrir. Það má hugsa sér að setja fé til viðbótar í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga til þess að mæta þessu. Það ber líka að hafa í huga að horfur eru á því að hækkun verði, a.m.k. sums staðar á fasteignaskattinum. Hv. þm. nefndi 20%. Ég skal ekki segja hvort það verður rauntala og vek sérstaka athygli á því að þetta er ekki skylda heldur heimild. Sveitarfélögunum er heimilt að hækka um einhverja tiltekna prósentu sem gæti orðið upp undir 20%. En það er ekki víst að þau noti hana. Það eru ekki nema sum sveitarfélögin sem nota sér hámarksálagningu útsvars.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.:

,,Hvað má ætla að útgjöld heimila á landsbyggðinni lækki mikið ef fasteignagjöld verða alls staðar sama hlutfall af raunverðmæti fasteignanna?``

Samkvæmt tölulegum upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað hjá Fasteignamati ríkisins lætur nærri að tekjur sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðis í gegnum a-lið fasteignaskatts, þ.e. álagningu á íbúðir, íbúðarhús og jarðeignir, lækki um allt að 380 milljónir miðað við álagningarprósentu sem er í gildi á þessu ári, ef ekki væri um uppreikning fasteignamatsins að ræða. Væri álagningarprósenta samkvæmt a-lið hins vegar fullnýtt hjá þeim sveitarfélögum þar sem stofn til fasteignaskatts er uppreiknaður, þ.e. væri 0,625%, þá lækkuðu tekjur sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins um allt að 700 milljónir. Hér er náttúrlega um tekjurýrnun að ræða fyrir sveitarfélögin utan höfuðborgarsvæðisins sem þau mega ekki við. En að vísu kemur á móti að verulegum álögum er létt af íbúum viðkomandi sveitarfélaga svo ekki sé minnst á álögur á fyrirtæki í þessum sveitarfélögum.

Hér er um mikið vandamál að ræða og það er vandmeðfarið. Það er ósanngjarnt að leggja fasteignaskatt á ímyndaðar eignir, skulum við segja. En á hinn bóginn þarf á það að líta að það verður að vera hægt að reka sveitarfélögin. Þau verða að geta staðið undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að standa undir. Mörg af þeim eru þannig sett að þau hafa orðið fyrir fólksfækkun að undanförnu. Gjaldendurnir eru færri. Tekjur sveitarfélaga lækka þá þegar af þeirri ástæðu og sums staðar hefur reyndar orðið tekjubrestur eða a.m.k. ekki launaskrið líkt og á höfuðborgarsvæðinu, eins og við vorum að enda við að ræða rétt áðan.