Fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 11:59:18 (1804)

1999-11-18 11:59:18# 125. lþ. 28.9 fundur 135. mál: #A fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá félmrh., KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[11:59]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að færa þetta mál hér til umræðu á Alþingi og hæstv. félmrh. fyrir svörin og þann áhuga sem hann sýnir á þessu máli. Það er alveg hárrétt að þetta er eitt af þeim mikilvægu málum landsbyggðar sem mjög brýnt er að taka á og þolir ekki langa bið.

Ég hugsa til þess með hryllingi þegar íbúar margra svæða landsbyggðarinnar fá fasteignagjaldsseðlana sína eftir áramót sem sýna 20% hækkun á fasteignagjöldum vegna þessarar stórhækkunar sem hefur orðið á höfuðborgarsvæðinu. Ég fagna því líka að í þessari umræðu skuli nefnd fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði og það sem hv. þm. Tómas Ingi Olrich sagði hér áðan frá Svíþjóð. Við þurfum nefnilega að nota skattkerfið og það er mjög auðvelt að nota það og þessi kerfi öll til þess að jafna aðstöðumun íbúa landsbyggðarinnar og höfuðborgarsvæðis og líka atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. Það er hægt að gera þetta í gegnum skattkerfið. Pólitískan vilja vantar.