Fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:00:31 (1805)

1999-11-18 12:00:31# 125. lþ. 28.9 fundur 135. mál: #A fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá félmrh., JB
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:00]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er eitt veigamesta hagsmunamál landsbyggðarinnar og landsins alls, þ.e. skattlagning á einstaklinga og fyrirtæki. Fasteignaskattar eins og þeir eru nú eru afar íþyngjandi. Þetta er meint óréttlæti sem íþyngir einstaklingum og fyrirtækjum og ber að leiðrétta. Eins og kom fram fyrr í umræðunni ættu skattarnir frekar að vera á þann veg að þeir hvettu til atvinnurekstrar úti á landi. Þessi skattlagning eins og hún er nú er mjög óréttlát. Hún felst eiginlega í því óréttlæti að taka af þeim sem ekkert eiga og flytja til hinna sem allt eiga.

Auðvitað verður líka að bæta sveitarfélögunum tekjumissinn. Þetta á að leiðrétta, hæstv. forseti, við fjárlagagerð nú í ár, fyrir árið 2000, ekki bíða til næsta árs. Ég hvet hæstv. félmrh. til að fylgja þessu fast eftir eins og ég veit að hann hefur fullan hug til.