Fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:05:06 (1808)

1999-11-18 12:05:06# 125. lþ. 28.9 fundur 135. mál: #A fyrirkomulag fasteignagjalda á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:05]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 2. þm. Vestf. að sveitarfélögin óskuðu eftir þessari aðferð, þeirri uppreikningsaðferð sem við erum að reyna að komast út úr núna. Rökin voru þau að það kostaði engu minna að þjóna hverju húsi í dreifbýlissveitarfélögunum eða í þorpunum úti um land heldur en á höfuðborgarsvæðinu.

Það vantar ekki pólitískan vilja til að leiðrétta þetta. Ég held að það hafi komið glögglega í ljós hjá þeim sem hafa tekið til máls um fyrirspurnina og ég þakka þeim öllum fyrir. Það er sameiginlegur pólitískur vilji allra að reyna að leysa þetta. Það sem vantar er að finna ráð sem dugir til að útvega sveitarfélögunum tekjur í staðinn, því að við erum engu eða litlu bættari jafnvel þótt við gætum lagað þetta óréttlæti og gert kannski meira aðlaðandi fyrir fyrirtæki að staðsetja sig á landsbyggðinni, sem er góðra gjalda vert, ef við á hinn bóginn með sömu aðgerð eyðileggjum fjárhag sveitarfélaganna.

Þetta mál er sem sagt í umræðu og til meðferðar. Ég get látið þess getið að fyrir næstu mánaðamót verður haldinn samráðsfundur sveitarfélaga og fulltrúa ríkisstjórnarinnar og þar kemur þetta mál vafalaust til umræðu.