Náttúruverndarþing

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:09:58 (1810)

1999-11-18 12:09:58# 125. lþ. 28.12 fundur 107. mál: #A náttúruverndarþing# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:09]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Það er hárrétt sem fram kom í máli hennar að skylt er að kalla saman náttúruverndarþing að afloknum alþingiskosningum.

Undirbúningur að náttúruverndarþingi er nú þegar hafinn og ég hef skipað starfshóp til að sinna þeim undirbúningi. Í honum eru þrír aðilar, þ.e. fulltrúi frá Náttúruverndarráði, fulltrúi frá Náttúruvernd ríkisins auk fulltrúa frá umhvrn.

Til að aðstoða við undirbúning þingsins, sem er nokkuð viðamikill, hefur verið ráðinn sérstakur starfsmaður og sá starfsmaður aðstoðar þennan starfshóp við undirbúning þingsins. Þingið á að halda 28.--29. janúar á næsta ári á Hótel Loftleiðum. Það er nú þegar búið að vinna talsvert í að skipuleggja þingið. Það er nokkuð langur aðdragandi, við þurfum að senda út dagskrá með miklum fyrirvara vegna þess að ferli varðandi fulltrúatilkynningar er talsvert viðamikið, en við stefnum að því að ganga frá dagskránni eftir skamman tíma. Við þurfum að senda þetta út, að mig minnir, í byrjun desember eða lok nóvember.

Búið er að skoða ýmis mál sem hugsanlega væri hægt að taka til umfjöllunar á þessu þingi sem ég boða til. Ég get komið með nokkrar hugmyndir hér þó að það sé að sjálfsögðu ekki búið að ganga endanlega frá þeim. Það var fyrst í gær sem ég fékk fyrstu hugmyndir að efnum sem væri hægt að ræða. Það er ljóst að mjög spennandi væri að ræða t.d. framkvæmd nýju náttúruverndarlaganna sem sett voru nýlega. Þar eru ýmis nýmæli sem vert væri að ræða á þinginu. Náttúruverndaráætlun er þar t.d. eitt atriðið en umhvrh. á að leggja fram náttúruverndaráætlun á árinu 2002, minnir mig. Það er viðamikil áætlun sem Náttúruvernd ríkisins mun halda að mestu leyti utan um og Náttúrufræðistofnun Íslands að sjálfsögðu koma sterkt að með upplýsingum. Það væri líka eðlilegt, tel ég, að menn ræddu hlutverk frjálsra félagasamtaka í náttúruvernd almennt.

Einnig væri vel við hæfi að ræða rammaáætlun ríkisstjórnarinnar varðandi virkjanir þar sem sú áætlun á að beinast bæði að náttúruvernd og efnahagslegum forsendum og byggðaforsendum, en við erum búin að nota hér síðustu tvo daga einmitt í að ræða það mál sérstaklega gagnvart Fljótsdalsvirkjun og er mjög erfitt mál. Það er því hægt að búast við nokkuð góðu og fjörugu þingi.

En eins og ég sagði, virðulegur forseti, þá er undirbúningurinn á fullu og stefnt er að því að halda þetta þing í lok janúar á næsta ári.