Rjúpnaveiði

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:16:39 (1813)

1999-11-18 12:16:39# 125. lþ. 28.13 fundur 116. mál: #A rjúpnaveiði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:16]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Jónsson):

Hæstv. forseti. Þegar rjúpnaveiðitímabilið hófst þann 15. október skapaðist hálfgert styrjaldarástand. Veiðistjóra þótti ástæða til að hrósa happi að ekki hefðu orðið slys á mönnum við atganginn fyrstu dagana. Bændur kvörtuðu undan ágangi þar sem aðkomumenn skutu rjúpur í heimalöndum, vitandi ekki nákvæmlega hvar mörkin voru milli heimalanda og hálendis eða óbyggða. Tugþúsundir rjúpna voru skotnar á fyrstu dögunum, jörð var auð og rjúpan komin í vetrarbúning, hvít á auðri jörð og lítt varin fyrir fylkingum byssumanna.

Þá velti ég fyrir mér hvort ekki væru mistök í skipulagi að stefna svo ört vaxandi veiðimannastofni á minnkandi veiðisvæði. Rjúpnaveiði er vinsælt sport margra og ég hygg að flestir veiðimenn gangi vel um landið þótt þeim takist auðvitað ekki að hreinsa upp blýið sem þeir dreifa um hálendið og veiðilendurnar. Þó eru til vandamálamenn með byssur, það eru t.d. þeir sem fara um á vélsleðum og skjóta rjúpur og þeir sem hlíta ekki öðrum reglum um veiðibúnað, eru með of mörg skot í byssunum o.s.frv. Það eru þessir menn sem koma óorði á veiðimennina sem eru að mínum dómi flestir vandir að virðingu sinni.

Eftir fyrstu viku veiðitímabilsins virðist sem jafnvægi hafi komist á en mér þykir eigi að síður ástæða til að spyrja hvort ástæða sé til að stytta tímann og þá með því að taka aftan af veiðitímanum. Eins og ég sagði þá eru rjúpnaskyttur sem fara um á vélsleðum mikið vandamál. Þeir eru nánast atvinnumenn sem skjóta mikið og eru fljótir í förum og geta á tveimur, þremur tímum farið yfir svæði sem gangandi veiðimaður fer á mörgum dögum.

Mér er spurn hvernig hægt sé að verjast þessu, hvernig hægt sé að efla eftirlitið, e.t.v. með því að herða viðurlög við brotum. Er e.t.v. rétt að stytta veiðitímann, ljúka veiðitímanum 1. desember? Þá er komið frost og snjór og rjúpan er orðin gæfari og hún er komin niður í byggð og niður undir vegi. Það má líka hugsa sér að sá hluti stofnsins, sem lifir fram í desemberbyrjun, sé sterkasti hluti stofnsins og sé því líklegur til að lifa af og koma upp ungum að vori.