Rjúpnaveiði

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:29:09 (1818)

1999-11-18 12:29:09# 125. lþ. 28.13 fundur 116. mál: #A rjúpnaveiði# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:29]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda að í upphafi veiðitímabilsins var engu líkara en menn væru að skunda útihátíð. Við urðum vör við það í ráðuneytinu þegar við vorum að athuga þessar aðgerðir að fjölmargir veiðimenn voru búnir að panta sér t.d. sumarbústaði í upphafi veiðitímans 15. október og höfðu miklar áhyggjur af því að við mundum kannski stytta veiðitímann, þ.e. fresta honum og þá yrðu menn þarna í sumarbústaðnum án þess að geta farið á veiðar. Þetta er auðvitað félagsleg athöfn líka að fara saman á veiðar.

[12:30]

Ég held að menn þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að veiðimenn taki að skunda út um sveitir vegna friðunaraðgerða hérna á suðvesturhorninu og þar verði gífurleg ofveiði. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því. Að sjálfsögðu stundum við ekki rannsóknir bara á þessu svæði. Rannsóknir fara fram víðar um landið. Það verður fylgst með rjúpnastofninum almennt. Ef menn sjá rauð ljós blikkandi annars staðar þá þurfum við að sjálfsögðu að grípa í taumana, skyldi niðurstaðan verða sú að ofveiði yrði annars staðar. Auðvitað er hugsanlegt að skotveiðimönnum fjölgi.

Hér komu líka fram ábendingar frá hv. þm. Kristjáni Pálssyni varðandi fjórhjól, kvóta og annað slíkt. Það er hárrétt að þunginn er meiri. Menn nota önnur tæki og hunda. Það væri hægt að setja einhvers konar kvóta, banna sölu eða hafa svona bakpokakvóta. Menn mættu sem sagt fylla einn bakpoka, veiða tiltekinn fjölda rjúpna eða slíkt. En með því þyrfti gífurlegt eftirlit.

Varðandi blýið þá þarf að skoða það mál sérstaklega. Erlendis hefur verið bannað að nota blý, t.d. á svæðum þar sem er mikið skotið á litlu svæði, í tjörnum t.d. þar sem endurnar hafa tekið upp blýið. Þetta er mál sem við viljum gjarnan skoða í umhvrn. og okkur hefur nýlega verið bent á.