Gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:33:22 (1820)

1999-11-18 12:33:22# 125. lþ. 28.14 fundur 131. mál: #A gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér er m.a. spurt hvaða hugmyndir liggi að baki aðgangseyri að friðlýstum svæðum sbr. lið 14-205 í fjárlagafrv. fyrir árið 2000. Því er til að svara að hugmyndin að baki þessu eru ný lög. Í nýjum lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem tóku gildi 1. júní sl. eru heimildir til gjaldtöku á friðlýstum svæðum fyrir þjónustu sem veitt er ferðamönnum sem heimsækja viðkomandi svæði. Hér er um nýja lagasetningu að ræða, nýja heimild sem mönnum þykir vert að skoða hvernig hægt er að nýta sér.

Menn hafa fikrað sig inn á þessa braut í nágrannaríkjum okkar. Þetta er t.d. gert í Bretlandi, þar er seldur aðgangur að friðlýstum svæðum. Sú starfsemi er rekin af English Nature sem er stofnun sambærileg við Náttúruvernd ríkisins. Þetta er gert hjá nokkrum öðrum Evrópuþjóðum, t.d. Svíþjóð og Sviss. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku eru líka innheimt gjöld, væntanlega sinna því menn með kaskeiti eins og hv. þm. orðaði það hér áðan. Þar er talið mjög eðlilegt að taka gjöld fyrir ákveðna þjónustu og vegna reksturs á friðlýstum svæðum.

Rekstur og umsjón með friðlýstum svæðum, þjóðgörðum í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum t.d., er mjög dýr. Það er ekki óeðlilegt að þeir sem dvelja á viðkomandi svæði greiði einhvern hluta af þjónustu og viðhaldi þar.

Í dag eru rúmlega 80 friðlýst svæði í umsjá Náttúruverndar ríkisins og á undanförnum árum hafa verið veittar af fjárlögum um 4 millj. kr. til merkingar, viðhalds og umsjónar með þessum svæðum. Ferðamálaráð hefur á þessu ári tæplega 15 millj. kr. til viðhalds og uppbyggingar á fjölsóttum ferðamannastöðum. Það gefur augaleið að þessar fjárveitingar hrökkva mjög skammt til að byggja upp salerni og viðhalda þeim, leggja göngustíga, viðhalda þeim, merkja svæði o.s.frv. Því er eðlilegt að reyna að finna nýjar leiðir til þess að nýta þá heimild sem ég gat um í upphafi.

Ljóst er að ferðamönnum mun fjölga alveg gífurlega hér á næstu árum, þeim hefur fjölgað um 15% á milli ára. Í ár verða þeir jafnmargir og íbúar þessa lands. Eftir tíu ár verða þeir sennilega tvöfalt fleiri, eða um 500 þúsund manns. Það er ljóst að við verðum að fara í víðtæka uppbyggingu á náttúruperlum okkar og friðlýstum svæðum. Ég hef nýlega fengið í hendur skýrslu frá Ferðamálaráði, Vegagerðinni og Náttúruvernd ríkisins. Þessir aðilar hafa skoðað hvað það muni kosta að byggja upp svæðin í framtíðinni. Það eru ekki lágar fjárhæðir. Þeir telja að á næstum árum þurfi að leggja hátt í 500 millj. kr. í uppbyggingu þessara svæða, 450--500 millj. Reyndar er ekki forgangsröðun í þessari skýrslu en hún er mjög spennandi. Þeir greina verkefnin niður í svæði og þetta er heildartalan.

Hér á landi hefur gjaldtaka verið stunduð í nokkrum mæli. Algengast er að innheimt sé á tjaldsvæðum en einnig hefur verið innheimt í Höfða í Mývatnssveit svo dæmi sé tekið. Náttúruvernd ríkisins hefur innheimt gjöld af tjaldsvæðum í þjóðgörðum og nýlega var ákveðið að innheimta aðgangseyri að Gestastofu í Skaftafelli, sem var opnuð núna í júlí. Þar er ákveðin þjónusta, menn geta komið og skoðað svæðið í myndrænu formi.

Við fjárlagagerðina var ákveðið að reyna að fara þá leið að skoða hvort þetta væri hægt og hvernig ætti að gera það. Þetta er mjög flókið mál. Settar voru 15 millj. kr. til þessa liðar. En það er inngreiðsla og útgreiðsla þannig að ef þetta tekst, hvort sem helmingurinn næst inn, allt eða hluti þá á það að fara aftur í uppbyggingu þessara svæða. Í nefndinni sitja fulltrúar frá samgrn., fjmrn. og umhvrn.

Ég er ekki með lausnina núna en þessi nefnd mun bráðlega skila til mín tillögum. Ég sé t.d. ekki fyrir mér að reisa megi umfangsmiklar girðingar í náttúru okkar. Hér eru ekki tré til að fela slíkar girðingar. Þær yrðu lýti í landslaginu nema þær yrðu mjög smekklega gerðar. Það er líka kostnaðarsamt að greiða innheimtufólki laun. Spurningin er hvort hægt væri að gera þetta öðruvísi. Er hægt að innheimta gjald af ferðamönnum við komuna til landsins? Það er líka mjög flókið. Sumir ætla inn á hálendið og skoða náttúruna en aðrir ekki. Þetta er ekki einfalt mál. Þess vegna var settur saman hópur til að fara sérstaklega yfir þetta og skila tillögum. En þetta er hugsunin.

Það er gífurlega dýrt að sinna þessu en ferðamennirnir eru mikil tekjulind. Spurningin er hvort ekki eigi að reyna að innheimta gjald fyrir aðgang að viðkvæmum svæðum til þess að byggja upp þjónustu.