Gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:38:35 (1821)

1999-11-18 12:38:35# 125. lþ. 28.14 fundur 131. mál: #A gjald af ferðamönnum á friðlýstum svæðum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:38]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Ég fellst alveg á þá lýsingu sem hæstv. umhvrh. gaf á þeim heimildum sem í núgildandi lögum eru um gjaldtöku. Sú heimild miðast við að gjaldið sé tekið fyrir veitta þjónustu. Í núgildandi lögum, eins og ég les þau, er ekki heimild til að taka gjald af ferðamönnum fyrir það eitt að njóta náttúrunnar. Það er grundvallaratriði í þessum lögum að það er ekki hægt að gera sér náttúruna að féþúfu.

Ég held að rétt væri að við einbeindum okkur að því á komandi missirum og árum að skoða mjög vel inn á hvaða brautir fara skal í þessum efnum. Það kemur til með að hafa áhrif á, ekki einungis hvernig ferðaþjónustan þróast á Íslandi heldur og hvernig við sjálf umgöngumst okkar eigið land og hvernig við þróum afskipti okkar af landinu. Landið er með stærstu lífsgæðunum sem við eigum.