Staðardagskrá 21

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:45:19 (1825)

1999-11-18 12:45:19# 125. lþ. 28.15 fundur 133. mál: #A Staðardagskrá 21# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:45]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín lýtur að upplýsingum sem koma fram í fjárlagafrv. til næsta árs og varða verkefnið Staðardagskrá 21, 18 mánaða samstarfsverkefni Sambands ísl. sveitarfélaga og umhvrn. sem sett var á laggirnar í lok árs 1998. Staðardagskrárverkefnið á rætur að rekja til heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í Ríó vorið 1992 og markaði tímamót í alþjóðlegu samstarfi í umhverfismálum. Einn þáttur í niðurstöðum ráðstefnunnar var framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun í heiminum, Staðardagskrá 21.

Staðardagskrá 21 er heildaráætlun um þróun hvers samfélags um sig fram á 21. öldina, nokkurs konar forskrift að sjálfbærri þróun eða lýsing á því hvernig samfélagið ætlar að fara að því að tryggja komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði á jörðinni. Áætlunin snýst ekki eingöngu um umhverfismál heldur er henni einnig ætlað að taka tillit til efnahagslegra og félagslegra þátta. Eitt aðalatriðið í hugmyndafræðinni sem að baki liggur er að umhverfismál verði aldrei slitin úr samhengi við önnur mál heldur beri að skoða áhrif mannsins á umhverfi sitt í víðu samhengi.

Jafnframt er það lykilatriði að þátttakendur í verkefninu, þ.e. þau sveitarfélög sem skrá sig til þátttöku og eru um þessar mundir 31 hér á landi, njóti handleiðslu verkefnisstjórnar og framkvæmdastjóra verkefnisins þar til því markmiði er náð að þau geti staðið á eigin fótum því vinnu sem þessari verður aldrei lokið. Enda skiptir miklu máli að stuðningi við sveitarfélögin ljúki ekki fyrr en þau eru orðin fær um að halda áfram sjálfkrafa.

Hugmyndin var að verkefnið stæði einungis í um 18 mánuði og þá yrðu þau sveitarfélög sem þátt hafa tekið komin það vel á veg að þau ættu að geta haldið áfram án stuðnings verkefnisstjórnar eða framkvæmdastjóra. En svo er ekki. Það markmið hefur ekki enn náðst. En það er þó ekki langt undan.

Virðulegur forseti. Í fjárlögum ársins í ár, 1999, veitti ríkissjóður 3 millj. kr. til verkefnisins en samkvæmt frv. næsta árs mun sá stuðningur falla niður. Nú spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki sé mögulegt að endurskoða þessa afstöðu og sjá til þess að verkefnið hljóti áframhaldandi stuðning þar til markmiðum þess verður náð.