Notkun á íslensku máli í veðurfréttum

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 12:58:46 (1832)

1999-11-18 12:58:46# 125. lþ. 28.16 fundur 155. mál: #A notkun á íslensku máli í veðurfréttum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 125. lþ.

[12:58]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Í bók sinni Veðurfræði skýrir Jón Eyþórsson fyrirbærið sem kallað er veður sem hið daglega viðmót náttúrunnar gagnvart mönnum og málleysingjum. Síbreytileiki íslensks veðurfars hefur verið almenningi óþrjótandi umtalsefni og innblástur hagyrðinga. Listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, orti svo um veðrið, með leyfi forseta:

  • Veðrið er hvorki vont né gott,
  • varla kalt og ekki heitt.
  • Það er hvorki þurrt né vott,
  • það er svo sem ekki neitt.
  • Þórður Tómasson frá Vallnatúni birti margar sögur og vísur í bók sinni Veðurfræði Eyfellings sem og orðnotkun í veðurmáli. Ein vísan hljóðar svo, með leyfi forseta:

  • Útsynningur grettinn, grár,
  • grimmur í éljaróti.
  • Landnyrðingur þybbinn, þrár
  • þessum blæs á móti.
  • Orðin útsynningur og landnyrðingur eru ekki notuð lengur í daglegu máli. Þau þykja trúlega gamaldags. Breytingin varð þó ekki fyrr en almenningur fer að heyra fréttir í útvarpi og veðurfræði seinni tíma nær yfirhöndinni í notkun íslenskrar tungu við að lýsa veðri.

    Það nýjasta hjá okkar nútímalegu veðurfræðingum er að leggja af íslensk orð sem lýsa veðurhæð. Í stað þeirra eru komnir metrar á sekúndu. Í fyrstu veðurfræðibók á íslensku sem gefin var út árið 1882 af Hinu íslenska bókmenntafélagi er talað um stig frá einu og upp í sex þegar vindstyrk er lýst og var t.d. eitt stig andvari og sex stig ofviðri.

    Í Veðurfræði Jóns Eyþórssonar er talað um vindstig 0--17. Hverju vindstigi fylgir nákvæm lýsing á því hvað gæti gerst við hvert vindstig. Í Veðurfræði Markúsar Á. Einarssonar er vindhraðinn frá 0--12 stig og lýsing í svipuðum anda og hjá Jóni Eyþórssyni. Sex vindstig eru stinningskaldi eða strekkingur og er lýst þannig, með leyfi forseta:

    ,,Stórar greinar svigna. Hvín í símalínum. Erfitt að nota regnhlífar.``

    Átta vindstig eru hvassviðri: ,,Trjágreinar brotna. Erfitt að ganga á móti vindinum.``

    Tíu vindstig eru rok: ,,Fremur sjaldgæft í innsveitum. Tré rifna upp með rótum, talsverðar skemmdir á mannvirkjum.``

    Herra forseti. Hver hefur tilfinningu fyrir því hvað 10 metrar á sekúndu þýða í lýsingu á vindhraða? Sögð var sú gamansaga að engir bátar hefðu farið á sjó fyrstu vikuna eftir þessa breytingu því spáin var norðaustan 10 allan tímann. Það er samt ekki aðalatriðið hvort almennur skilningur er á þessari nýju aðferð við að lýsa veðurhæð. Sá skilningur kemur væntanlega með tímanum. Meiru skiptir í mínum huga að íslenskt mál verður fátækara og málnotkun að þessu leyti rýrari í roðinu. Kári er orðinn útflattur.

    Varðveisla íslenskrar tungu er okkur hugleikin sem betur fer og nauðsynlegt að leita allra leiða til að viðhalda fjölbreytileika málsins.

    Herra forseti. Ég legg til að Veðurstofan noti í veðurfréttum og veðurspám íslensku orðin logn, hægur andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi, stinningskaldi, allhvass, hvass, stormur, rok, ofsaveður og fárviðri eins og við á, eins og Eggert Lárusson nefnir veðurstyrk í bók sinni. Veðurstofan getur einnig notað metra á sekúndu ef það er talið nauðsynlegt að mati veðurfræðinga. Varðveisla þessara orða er mikilvægari fyrir íslenska tungu en það hvort veðurlýsingin taki 10 sekúndum lengri tíma en ella. Þess vegna ber ég fram þær spurningar sem lagðar hafa verið fram, herra forseti, til hæstv. umhvrh.