Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:24:52 (1839)

1999-11-18 13:24:52# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, TIO
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:24]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Undanfarna daga hafa farið fram athyglisverðar umræður um Fljótsdalsvirkjun og framkvæmdir við þá virkjun ásamt umræðum um umhverfismál almennt og tengsl virkjanaframkvæmda við umhverfismál. Þar sem þessar umræður hafa ekki aðeins fjallað um þessa einu virkjun heldur að mjög verulegu leyti um afstöðu manna til þess hvernig við eigum að nýta landið, hvernig við eigum að umgangast það, að hve miklu leyti við eigum að vernda það fyrir framkvæmdum, finnst mér rétt að fjalla stuttlega í máli mínu um lagalega stöðu Fljótsdalsvirkjunar, um tengsl þessarar virkjunar við lög um mat á umhverfisáhrifum en fara einnig nokkrum orðum almennt um þá umræðu sem hefur farið fram um umhverfisvernd og þær hugleiðingar sem menn hafa haft um nýtingu landsins almennt. Ég hefði óskað eftir því að tveir af þeim þingmönnum sem hafa fjallað að sumu leyti mest um þessa almennu afstöðu okkar til nýtingar landsins gæða væru viðstaddir umræðuna. Ég nefni þar sérstaklega til leiks hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson og vil spyrja um hvort forseti geti athugað hvort þessir virðulegu þingmenn geti verið viðstaddir umræðuna.

Fyrir það fyrsta, herra forseti, er alveg ljóst ef menn lesa vel þá greinargerð sem fylgir þáltill. að lagaleg staða Fljótsdalsvirkjunar er mjög sterk. Ljóst er að búið er að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni og virkjunarleyfið var dags. í aprílmánuði 1991. Ljóst er að það leyfi byggðist á sterkum lagalegum grundvelli og er reyndar hægt að finna þann grundvöll í heimildarákvæði í lögum frá 1981 fyrir ríkisvaldið að semja við Landsvirkjun um framkvæmdaröð í orkumálum.

Staðan er sú að ekkert er því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun. Mikið hefur verið rætt um tengsl þessarar virkjunar við lög um mat á umhverfisáhrifum eins og þau voru samþykkt á árinu 1993 og þá alveg sérstaklega í tengslum við svokallað bráðabirgðaákvæði sem er að sjálfsögðu sá lagabókstafur sem stuðst er við þegar rætt er um að lagalegar forsendur séu fyrir virkjuninni.

Nú er það svo að sá sem hér stendur var framsögumaður fyrir hv. umhvn. þegar þessi lög voru kynnt í þinginu eftir að unnið hafði verið að þeim í nefndinni. En það vildi svo til að lagafrv. var breytt í grundvallaratriðum þegar umhvrn. vann við það. Þar kemur fram alveg skýrt og skorinort að þær virkjanir sem hafa leyfi sem gefin hafa verið út fyrir 1. maí 1994, ef ég man þetta allt saman, falla ekki undir lögin. Nú kann að vera að einhverjir álykti sem svo að menn hafi hugsað um eitthvað annað en Fljótsdalsvirkjun þegar slíkt bráðabirgðaákvæði var sett í lögin en það hefur að sjálfsögðu lagalegan grundvöll eins og önnur lög. Bráðabirgðaákvæði eru lög. Það var ekki svo að menn hafi hugsað um einhverja vegarspotta eins og mig minnir að hafi verið minnst á í þingræðu. Að sjálfsögðu gengu menn með galopin augun að því hvernig þetta bráðabirgðaákvæði yrði notað. Allur vafi var tekinn af um það með þessu ákvæði, allir voru í fullri vissu um það hvernig farið yrði með leyfi sem hafa verið útgefin fyrir 1. maí 1994.

Er nú líklegt að menn hafi þá á þessum tíma verið að hugsa um eitthvað annað en hin miklu áform norðan Vatnajökuls? Er líklegt að hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni hafi yfirsést þessi virkjun þegar þessi mál voru til umræðu á Alþingi? Það er frekar ósennilegt. Að sjálfsögðu gengu menn með galopin augun að þessu. Það sem vekur mesta athygli í allri þessari umræðu nú er það hvað menn voru að hugsa frá því að þessi lög voru sett með bráðabirgðaákvæðinu og fram til þess dags í dag þegar menn rísa nú upp og krefjast þess að lögformlegt umhverfismat verði framkvæmt. Hvers vegna komu þessar kröfur ekki fram fyrr?

[13:30]

Eftir að lögin voru sett og eftir að þau tóku gildi var deginum ljósara að þessi virkjun mundi ekki falla undir lögin. Ef menn voru á annað borð óánægðir með það, hvers vegna kom sú ósk þá ekki fram strax? Það verður að skýra það því að mjög margir af þeim þingmönnum sem sitja á þingi í dag voru þingmenn á þessum tíma, tóku þátt í þessari umræðu, samþykktu þessi lög með bráðabirgðaákvæðunum og vissu fullvel að hverju þeir gengu. Það vill nefnilega svo til að það er hægt að krefjast þess af mönnum að þeir sýni samkvæmni í skoðunum sínum frá einu ári til annars og yfir langan tíma og það á ekki síst við í sambandi við virkjunaráform eins og þessi vegna þess að virkjunaráformin er þess eðlis að þau fela í sér gífurlegar fjárskuldbindingar, áætlanagerð til margra ára og því er nauðsynlegt fyrir þá sem starfa að virkjunarframkvæmdum að sjá nokkurn veginn fram í tímann hvaða leikreglur gilda um fjárfestinguna og um rannsóknirnar. Þess vegna verður að standa mjög fast vörð um að þeir verði ekki sviknir sem ganga fram í góðri trú um að þær reglur gildi sem samþykktar hafa verið.

Það fór sem sagt ekki milli mála að þarna var verið að búa til ákvæði sem heimilaði að Fljótsdalsvirkjun yrði framkvæmd. Í þessum efnum gengum við þó lengra en tilskipun Evrópusambandsins, en samkvæmt henni hefði verið heimilt að leyfa framkvæmdir þar sem aðeins hefði verið farið fram á að fá virkjunarleyfi. Við gengum lengra. Við sögðum: ,,Það eru einungis þær framkvæmdir sem hafa fengið virkjunarleyfi fyrir 1. maí 1994 sem þetta á við um.`` Því er með öllu óviðunandi að því sé haldið fram hér og nú að ekki séu lagalegar forsendur fyrir því að í þessa virkjun sé ráðist. Ef menn voru á annað borð ósammála því að lögin um mat á umhverfisáhrifum væru í því formi sem þau voru samþykkt 1993, þá hefðu þær raddir átt að heyrast þá þegar, enda hefði þá gefist tími til þess að skoða þessi mál nánar.

Herra forseti. Hér hafa farið fram mjög athyglisverðar umræður um umhverfismál, um sjálfbæra þróun, um svokallaða varúðarreglu og um það almennt hvernig við eigum að nýta þetta land okkur til hagsældar. Þetta eru mjög erfið álitaefni og Fljótsdalsvirkjun kemur inn í þessa umræðu á mjög athyglisverðan hátt.

Það er ekki nokkur vafi á því að ef við virkjum við Eyjabakkana, búum til miðlunarlón við Eyjabakkana og byggjum virkjun sem byggist á þeirri miðlun, þá erum við að fórna náttúrulegum verðmætum. Það liggur ljóst fyrir. Ég mundi aldrei ganga svo langt að halda því fram að þessi verðmæti sem við erum að tala um að fórna séu ekki mikils virði. Þvert á móti tel ég að þau séu mikils virði. Það er einu sinni þannig að við getum ekki rekið samfélag eins og hið íslenska samfélag öðruvísi en ganga á verðmæti náttúrunnar.

Það vill nefnilega svo til að þessi þjóð er með einna hæsta lífsstíl og af öllum þjóðum heimsins. Það vill svo til að þegnar þessa þjóðfélags, og það á við um alþingismenn líka, eyða einna mest allra þjóða í heiminum. Eyðslustíll þessarar þjóðar setur í raun met. Því vil ég spyrja þingmenn, þegar þeir fara í þá miklu umræðu sem hér hefur átt sér stað um sjálfbæra þróun, hvort þeir séu í raun og veru þess umkomnir að lifa í samræmi við eigin hugsjónir. Við skulum taka sem dæmi hugsjónina um sjálfbæra þróun og varúðarregluna svo kölluðu. Ef þessum reglum, sem eru hluti af því sem við viðurkennum á alþjóðlegum vettvangi, er fylgt út í ystu æsar, hvað þýða þær t.d. fyrir lífskjörin hér á Íslandi? Það er ljóst að það er ágreiningur um hversu staðföst ráðgjöf okkar um sjávarútvegsmál er. Það er ekki víst að við séum í raun, menn eru ekki sammála um það, að við séum að nýta sjávarauðlind okkar á sjálfbæran hátt. Og á þá ekki náttúran að njóta vafans? Ef náttúran á að njóta vafans, eigum við þá ekki skera niður aflaheimildirnar og skerða lífskjör á Íslandi?

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur gert sig á þinginu mikinn talsmann umhverfismála og umhverfisverndar. Það er gott að eiga slíka talsmenn hér á þingi en það er líka eðlilegt að við ætlumst til þess að þeir séu sjálfum sér samkvæmir. Hún talaði um að hún væri á móti álverum. Er þingmaðurinn á móti álbræðslum eða vill hún hafa álbræðslurnar annars staðar?

Það vill t.d. svo til að ál er eitt af þýðingarmestu framleiðsluvörum í sambandi við flugvélaiðnað. Á flugvélaiðnaðinum lifir ferðaþjónusta Íslendinga. Hún væri óhugsandi öðruvísi en að við gætum nýtt okkur þessa framleiðslu í flugvélaiðnaði. Er þá sem sagt bara í lagi ef við stundum ekki þennan áliðnað þó aðrar þjóðir geri það? Og hvernig er áliðnaður þeirra? Hann er ekki stundaður með umhverfisvænum orkulindum heldur með brennslu jarðefna. Er það svo í raun og veru að það sé bara allt í lagi að Íslendingar taki ekki þátt í því að vinna orku frekar með umhverfisvænum aðferðum af því að okkar litla framlag til orkuframleiðslu heimsins mundi aðeins nægja til þess, eins og kom hér fram í ræðu, að uppfylla 1% af orkuþörf Evrópu? Ef allar þjóðir heimsins hugsuðu eins og hv. þm. og segðu bara: ,,Við erum svo lítil að okkur ber ekki að taka þátt í þessu``, þá held ég að illa væri fyrir okkur komið.

Það vill nefnilega svo til að við erum í hópi orkufrekustu þjóða heimsins og við lifum við lífsstíl sem er með þeim hæsta í heiminum og ég hef ekki orðið var við það, satt best að segja, að neinir þingmenn í þessum þingsal ætli sér að afneita þessum lífsstíl. Ég hef ekki orðið var við að menn ætli sér að gíra niður lífsstílinn á Íslandi. En á hverju byggist þessi lífsstíll? Hann byggist á mikilli þungaframleiðslu og þar á meðal á framleiðslu áls. Ætlum við þá að segja sem svo: ,,Gott og vel. Við erum það heilög að við ætlum öðrum þjóðum að framleiða þetta. Við ætlum þeim að framleiða þetta með brennslu jarðefna og það skiptir ekki máli hvar útblásturinn verður. Hann verður alla vega ekki hér.``

Er það svo að umhverfismál séu ekki hnattræn í eðli sínu? Er það svo? Ég hef getið þess áður að mér finnst vanta mjög mikla dýpt í umræðuna um umhverfismál. Það sem vantar í þessa umræðu er að menn séu sjálfum sér samkvæmir.

Umhverfissamtök, eins og ég hef getið um áður, berjast gegn því að menn noti kjarnorkuna til orkuframleiðslu. Hver er hinn kosturinn? Hann er brennsla jarðefna. Sömu þjóðir og hafa mælt með því að draga úr raforkuframleiðslu með kjarnorku stefna að því að auka brennslu jarðefna til að framleiða raforku. En samt sem áður eru þau aðilar að Kyoto-bókuninni. Það er þessi mikla ósamkvæmni í málflutningi þingmanna, sem neita sér um að skoða þetta í heild, sem ég vil gera athugasemdir við.

Ég vil nefna það sérstaklega, þó að ég sakni þess að sjá ekki hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson í þingsalnum, að fáir einstaklingar hafa tamið sér annan eins lífsstíl og sá ágæti þingmaður sem fór á suðurskautið, ekki satt, til þess að skemmta sér. Hvað þýðir þetta? (Gripið fram í: Hvað kemur það málinu við?) (GÁS: Þetta er ... í ríkisstjórnarsamstarfið.) Má ég spyrja, hv. þingmenn: Hvað þýðir þetta í lífsstíl? Gera menn sér grein fyrir því að Íslendingar eyða almennt u.þ.b. þúsund sinnum því sem einstaklingur í Tsjad eyðir? Við erum með eyðslufrekustu þjóðum og með hæsta lífsstíl í heiminum og samt eru menn að tala um það hér í alvöru og ætlast til þess að þeir séu teknir alvarlega að við getum horft fram hjá því að nota okkar eigin orkulindir okkur til framdráttar. Ég vil taka það skýrt fram að ég hef talið mig vera umhverfissinnaðan mann en ég held að við getum ekki rekið umhverfisstefnu sem byggist á því að við eigum hér friðland og gætum hér friðlands fyrir aðrar þjóðir. Við þurfum að nýta þetta land og á þeirri grundvallarhugsum eigum við að byggja stefnu okkar.