Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:53:10 (1853)

1999-11-18 13:53:10# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:53]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Sverri Hermannssyni um að fyllilega sé staðið við lagaákvæði um þetta mál. Það hefur að vísu verið dregið í efa hér í umræðum á þinginu að svo sé en ég er sammála hv. þm. um að lögin heimili þessa virkjun.

Að því er varðar lög um mat á umhverfisáhrifum þá eru það gildandi lög. Í dag eru lögin sem sett voru hér 1993 gild. Bráðabirgðaákvæðið er þar af leiðandi gildandi lagaákvæði. Því er ljóst að samkvæmt gildandi lögum þarf ekki að setja þessa virkjun í lögformlegt umhverfismat. Hins vegar er alveg ljóst að hæstv. ráðherra hefur heimild til þess að krefjast þess en það hefur ekki verið gert. Ástæðan fyrir því að menn standa hér nú og ræða þetta er að það er óskað eftir því að Alþingi staðfesti þann vilja sinn að ráðast í þessa virkjun.