Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:57:03 (1857)

1999-11-18 13:57:03# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, TIO (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Tómas Ingi Olrich (andsvar):

Herra forseti. Það er einhver misskilningur í gangi hjá hv. þm., síðasta ræðumanni, að ég hafi sagt að ekki mætti svíkja það sem fengið hefði undanþágu. Hafi ég sagt það þá er það ekki rétt að orði komist. Þeir aðilar sem hér er um að ræða, þ.e. Landsvirkjun, hafa ekki neinar undanþágur. Þeir hafa lögum samkvæmt fengið virkjunarheimild. Sú virkjunarheimild stenst lög um mat á umhverfisáhrifum og því þarf ekki að veita þeim neina undanþágu í þessu sambandi.

Hins vegar get ég tekið undir það sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á hér, að það er ekki sólarlagsákvæði í þessu bráðabirgðaákvæði, það er alveg hárrétt hjá honum.