Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 13:59:13 (1860)

1999-11-18 13:59:13# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[13:59]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í marsmánuði 1983 var sá sem hér stendur í framboði fyrir Alþfl. á Austurlandi. Eitt þeirra stóru mála sem þar voru hvað efst á baugi á framboðsfundum, m.a. á miðfjörðum Austurlands, voru fyrirætlanir stjórnvalda um að reist skyldi stóriðja á Reyðarfirði, kísilmálmvinnsla sem átti að verða vítamínssprauta í tiltölulega einhæft atvinnulíf þar eystra. Tilheyrandi virkjanir fylgdu vitaskuld. Þessi verksmiðja frá því 1983, eins og allar fyrr og síðar, þurfti á talsverðu rafmagni að halda til framleiðslunnar.

Það var enginn ágreiningur um þetta mál á framboðsfundum þar eystra fyrir þessar kosningar, árið 1983, fyrir tæpum 17 árum síðan. Þeir lofuðu Austfirðingum öllu fögru í þessum efnum; Jón Kristjánsson var þarna, Hjörleifur Guttormsson var þarna, Halldór Ásgrímsson var þarna, Sverrir Hermannsson var þarna. Þeir eru hér enn. Þar voru aðrir sem ekki eru hér lengur.

[14:00]

Nú, 20 árum síðar, eru þessir menn enn þá á svipuðu róli. Enn þá er stóriðju lofað. Hvað hefur gerst í millitíðinni? Hvers vegna hafa ekki hin gömlu loforð verið uppfyllt um vítamínsprautur í atvinnu- og mannlíf þar eystra? Eða ef því er að skipta annars staðar í hinum dreifðu byggðum landsins? Förum aðeins yfir hvað hefur í raun gerst gagnvart heimamönnum þar eystra. Það var kísilmálmvinnsla á árunum 1982 til ársins 1985 eða 1986, þá dó sú tilraun út. Álverksmiðju bar þá á góma nokkrum árum síðar, slípiefnavinnslu enn síðar og síðan álverksmiðju aftur dags dato.

Það hefur sennilega eftir allt saman verið kraftur þeirra og áhugi, langlundargeð og þrautseigja austanmanna sem hefur haldið fyrirheitunum gangandi og loforðunum á lífi. Þeir stjórnmálamenn, sem ég nefndi til sögunnar og hafa farið með völdin, hafa haft áhrifin á þessum tæpu 20 árum eða svo, hafa ekki skilað því sem þeir lofuðu. Hér eru þeir enn og lofa. Við skulum hafa þessa mynd nokkuð skýra og glögga. Hverjir hafa farið með landstjórnina á þessum 20 árum, frá 1979 til ársins í ár? Framsóknarflokkurinn hefur verið hinn stóri flokkur þar eystra en hefur verið við landstjórnina í 17 ár af þessum 20. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur einnig verið með landstjórnina í 17 ár af þessum 20. Til að halda öllu til haga hefur Alþýðubandalagið verið við landstjórnina í sjö ár á þessu tímabili og Alþýðuflokkurinn í átta ár. Núverandi ríkisstjórnarflokkar hafa því meira og minna haft tögl og hagldir og öll tækifæri til þess að skila þessum fyrirheitum um eflingu atvinnulífs, um það að snúa vörn í sókn í hinum dreifðu byggðum landsins. Hverjar eru efndirnar? Þær blasa við okkur í dag, enn er lofað og enn er engum málum þannig til haga haldið að menn sjái fyrir endann á þessum loforðum, að menn sjái fram á að efndirnar komi nú loks í kringum aldahvörf. Það er ekki vegna þess, herra forseti, að á þessum 20 árum hafi verið svo miklar deilur um það viðfangsefni sem við ræðum hér, virkjunarframkvæmdir á Norðausturlandi. Nei, þvert á móti, það hefur verið tiltölulega góð sátt um það allt til síðari tíma, að fara í þær virkjunarframkvæmdir. Það hefur líka verið tiltölulega góð sátt um það á þessum 20 árum að stóriðja gæti átt heima í fallegum Reyðarfirði. Það er ekki fyrr en á síðari tímum sem að andófs hefur orðið vart í þeim efnum. Þeir stjórnmálamenn og þeir stjórnmálaflokkar sem nú fara með völdin í þessu landi geta því ekki einu sinni skotið sér bak við það að það hafi verið erfið rimma við einhverja hugsanlega stjórnmálaflokka sem aðrar skoðanir hefðu, ellegar þá almenning í landinu sem réttlætir það að þeir hafa ekki staðið við hin stóru orð sem þeir hafa hamrað á, aftur og aftur, á þessu 20 ára tímabili.

Þessu fylgir auðvitað fleira og rétt að halda því til haga í þessu samhengi. Það er ekki eingöngu á þessum vettvangi, í þessum eina firði, á þessu eina landshorni, að þessir ríkisstjórnarflokkar hafa ekki staðið við hin stóru orð, hafa ekki skilað loforðunum til raunveruleikans, heldur getum við horft á fleiri þætti eins og flutning ríkisstofnana sem þeir tala um en gera aldrei neitt í, Rarik, Byggðastofnun. Við getum talað um fiskveiðistjórnarkerfið sem þeir hafa oftar en einu sinni á réttum dögum, einatt fyrir kosningar, rætt um að þurfi að breyta til þess að það hætti að þurrka upp sjávarbyggðirnar hringinn í kringum landið.

Ég hef lengi haldið þannig áfram og það er engin tilviljun að oddviti þessarar ríkisstjórnar er jafnframt byggðamálaráðherrann í landinu, hefur verið það samfellt síðustu átta og hálft ár og er að gefast upp á því verkefni sínu og ætlar að færa það í hendur þess manns sem ber þetta mál hér fram í þeim búningi sem blasir við okkur, í bullandi ágreiningi, þegar allar eðlilegar kringumstæður og allur aðdragandi málsins ætti að vera með þeim hætti að hér ætti að ríkja tiltölulega góð sátt um þessi áform. Þannig hafa þessir menn, þessir stjórnmálaflokkar, spilað þessu máli út í horn. Þeirra er ábyrgðin og hún er mikil. Hins vegar er eftirtektarvert í þessu samhengi og það þekki ég býsna vel frá heimabyggð minni að oftar en ekki, þegar umræður og áform hafa gengið eftir varðandi uppbyggingu stóriðju, hefur deilan einatt ekki snúist um virkjunarþáttinn heldur fyrst og fremst verksmiðjuþáttinn og útblástur frá þeim. Straumsvík er gott dæmi um það, Norðurál sömuleiðis og svo mætti lengi telja. Hér er það hins vegar minni háttar mál í þessari stóru umræðu og það er út af fyrir sig gott og vel. Hitt er ástæða til að hafa í huga og menn hafa komið inn á það í framhjáhlaupi að það eru auðvitað mörg atriði sem er rétt að gaumgæfa í því. Ég tek hins vegar eftir því í skýrslum sem hafa ekki verið vefengdar að útblástur frá þessari verksmiðju þegar fram líða stundir verður með þeim hætti að til fyrirmyndar er gagnvart öðrum stóriðjuverum hér á landi. Þá er ég að tala um blauthreinsunina sem er bylting fyrir okkur Íslendinga. Það er fagnaðarefni.

Það verður talsverð breyting á byggðamynstri þar eystra, ég held að ástæðulaust sé að draga fjöður yfir það og að einhverju leyti mun byggðin þar, ef af verður, þróast í þá veru að um aukna kjarnabyggð verður að ræða, fólksflutning frá suðurfjörðum í Fjarðarbyggð. Kannski er ekkert að því, það er í þá veruna sem við höfum stundum verið að ræða hér að brýnt sé í okkar byggðamálum. Hins vegar er hægt að gefa sér það nokkurn veginn að hálftíma, 40 mínútna, 50 mínútna akstur til og frá vinnustað sé ekki fráleitt og eðlilegt undir öllum kringumstæðum, það þekkjum við á þessu svæði og finnst engum mikið að menn sæki vinnu til að mynda í álverið í Straumsvík héðan úr vesturbyggðum Reykjavíkur. Þetta eru líka þættir sem vert er að halda til haga og nefna hér þó að þeir hafi ekki farið hátt í umræðunni.

Vandi þessa máls er sá sem ég drap á áðan að stjórnvöld sjálf koma með málið í fullkomnu uppnámi inn á hið háa Alþingi. Undirskriftasafnanir með eða á móti í fullum gangi. Átök um málið á hinu háa Alþingi. Deilt um formsatriði málsins og formsatriði sem lúta að umhverfismati og nauðsyn þess að grípa til þess við þær aðstæður sem hér eru. Þetta eru eingöngu örfá þeirra atriða sem eru ofarlega á baugi og gera málið jafnsnúið og erfitt viðureignar og raun ber vitni.

Nokkur meginatriði í þessum efnum. Ríkisstjórnin átti auðvitað að fara með þetta mál í umhverfismat fyrir mörgum missirum þegar kröfur komu upp um slíkt enda þótt undanþáguákvæði frá 1993 væru í fullu gildi. Ég dreg enga dul á það að lög standa til þess og ríkisstjórnin getur sagt sem svo að undanþáguákvæði frá 1993 eigi hér við. Ég dreg enga dul á það. Ég hefði hins vegar talið málinu happadrýgra að gera þetta undir þeim formerkjum sem lög standa til í dag og fara í umhverfismat en að þurfa að vera í því hlutskipti að bera við tímaskorti og að málið sé svo klemmt í tíma að ekki gefist ráðrúm til slíks. Við erum að tala um mál sem hefur verið karpað um í 20 ár og hér koma menn og bera fyrir sig tímaskorti. Hver er þessi tímaskortur? Er það svo að samningar við væntanlega byggjendur álvers á Reyðarfirði hafi þegar gengið fram? Liggur ljóst fyrir hvaða verð eigi að vera á þessu rafmagni sem framleiða á í Fljótsdalsvirkjun? Nei, það eru líka mál sem eru óútkláð. Ég vona sannarlega það besta, að menn nái samningum við þessa fjárfesta, erlenda og innlenda. Það er að vísu allrar athygli vert að nú allt í einu er það svo að 80% fjárfestanna eru Íslendingar og öðruvísi mér áður brá þegar að það þótti meginatriði, a.m.k. af hálfu Sjálfstæðisflokks, að allir sem legðu í þann áhættusama rekstur sem álversrekstur er, þyrftu að vera útlendingar og koma erlendis frá til þess að koma í veg fyrir sveifluáhrif í íslensku efnahagslífi. En þetta er breyting og út af fyrir sig geri ég ekki athugasemdir við það.

Það er líka dálítið sérkennilegt, herra forseti, að málið skuli koma til kasta Alþingis undir þeim kringumstæðum sem hér eru. Öðruvísi mér áður brá, að þessi ríkisstjórn af öllum teldi sig þurfa eða teldi æskilegt að færa mál hér inn á borð þingmanna, fremur hefur þróunin verið sú að ríkisstjórnin hefur sótt eftir umboði þingsins til þess að ljúka sínum málum sjálf. Það undirstrikar auðvitað staðreynd og veruleika málsins að ríkisstjórnin er með pólitískan vanda í höndum og vill að þingið skeri sig niður úr þeirri snöru sem að stjórnvöld sjálf hafa smeygt um háls sér. Það er athyglisvert og það er líka athyglisvert varðandi fyrirkomulag þeirrar tillögu sem hér er og lýtur að þáltill. til staðfestingar á áður gerðum ákvörðunum sem byggðar eru á lögum. Ég velti því eilítið upp, herra forseti, hvernig það liti við formlega ef svo færi að þingið samþykkti ekki tillöguna. Hvar væri hæstv. iðnrh. staddur þá og engar lagabreytingar verið gerðar? Gæti hann lögum samkvæmt haldið sínu striki, gætu mál haldið fram eins og framkvæmdarvaldið hafði gert ráð fyrir? Eða hvað? Hafa menn skoðað þennan enda málsins? Ég held ekki. Það er nefnilega ákaflega sértækt og ég man satt að segja ekki til þess að menn hafi gengið til verks með þeim hætti sem hér um ræðir. Auðvitað er það þannig, herra forseti, að þegar að ríkisstjórnin kemur sjálf hér og opnar málið upp á gátt með þessari þáltill. hlýtur hún að eiga von á því að aðrir þættir þess opnist líka og þá á ég auðvitað við kröfuna um umhverfismat. Menn geta ekki bara opnað ákveðna þætti og haldið öðrum lokuðum heldur er málið í heild og breidd til umræðu og pólitískrar ákvörðunar á hinu háa Alþingi hvað sem öllum formsatriðum viðvíkur.

Herra forseti. Ég ætla að lyktum að undirstrika nokkra þætti málsins eins og þeir snúa við mér. Ég var sammála virkjun Fljótsdals á sínum tíma og Eyjabakka og er það enn og hef ekki skipt um skoðun í þeim efnum. Ég hef hins vegar kallað eftir því og hef ævinlega gert það, vegna þess að ég er umhverfissinni, ég er hins vegar lýðræðissinni og ég er framkvæmdasinni, að menn gangi til verka á þann hátt sem leikreglur segja til um. Þess vegna fagna ég út af fyrir sig þeim gögnum sem hér er að finna á borðum þingmanna. Þau eru góð svo langt sem þau ná. Ég dreg hins vegar enga dul á það heldur, þótt til lögformlegs umhverfismats hefði komið, að það skapar ekki alþingismönnum neina fjarvistarsönnun frá því að mynda sér skoðun og taka afstöðu til málsins, hvort heldur það mundi enda hér að forminu til á borði umhvrh. eða skipulagsstjóra. Eftir sem áður er skylda okkar sem stjórnmálamanna að taka afstöðu og undan henni ætla ég ekki að víkjast þó að stjórnarliðar skjóti sér gjarnan bak við þessa æruverðugu ríkisstjórn. Ég studdi með öðrum orðum stóriðju á Austurlandi á sínum tíma og styð hana enn. Ég lýsi hins vegar ábyrgð á hendur þessari ríkisstjórn með þessa afleitu stöðu málsins út og suður, að hafa skipað málum þannig að hér er það komið í fullkominni ósátt við allt og alla. Ég er því viðbúinn hinu versta en vona hið besta.