Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:16:14 (1862)

1999-11-18 14:16:14# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:16]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að hv. þm. komi hér fullur auðmýktar og þakki. Ég rakti það hins vegar eins og það blasti við, ekki mér, að hv. þm. hefur samkvæmt staðreyndum verið þingmaður Austurlands fyrir Framsfl. í um 17--18 ár og stærstan hluta þess tíma hefur hann verið í ríkisstjórn og landstjórninni einkum og sér í lagi með Sjálfstfl. en með góðum undantekningum þó.

Niðurstaðan er bara þessi. Ég held að hv. þm. sé nú með eilítinn útúrsnúning og aumt yfirklór þegar hann ræðir um að það hafi verið vandamál að finna þessu stað á Austurlandi. Reyðarfjörður hefur verið einasti staðurinn sem nefndur hefur verið til sögunnar öll þessi ár í þessum efnum. Það hefur því ekki verið vandmálið.

Einnig er það einkar athyglisvert, og ég nefndi það sérstaklega í ræðu minni, að nú telst það mjög happadrjúgt að íslenskir fjárfestar eigi stóran meiri hluta í þessari verksmiðju. En það var banabiti áformanna í hægri stjórninni þeirri sömu 1983--1987 eins og hv. þm. rakti varðandi málmblendiverksmiðjuna forðum daga. Bara kortið er eins og það er. Þetta er bara skrifað á vegginn. Nú 20 árum síðar eru þeir enn að reyna að selja þessa hugmynd, því miður ekki fullkláraða. Þess vegna sagðist ég vona svo sannarlega að Austfirðingar verði ekki sviknir í tryggðum enn og aftur, nóg er nú samt.