Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:20:11 (1864)

1999-11-18 14:20:11# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Já, margt er heimilisbölið. Menn ganga jafnvel svo langt að segja undirskriftasafnanir vera þjóðaratkvæði. Það var hæstv. fyrrum forsrh. og formaður Framsfl. sem viðhafði þessi orð, Steingrímur Hermannsson, sem hefur nú gjarnan verið andlegur leiðtogi hv. þm. Jóns Kristjánssonar fram undir það síðasta a.m.k. Það er margt heimilisbölið.

Við höfum aldrei lofað neinu og gerum ekki enn. Og orkusamningar hafa ekki verið kláraðir og við vitum ekkert hvernig þeir enda. Og meira að segja er málið þannig komið í þjóðfélaginu að það er í algjöru uppnámi. Þetta eru orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar nú 20 árum síðar. Er það furða þótt hans heimamenn og kjósendur horfi með forundran á þessa forustuflokka í kjördæminu og á landinu öllu og spyrji hvað dvelji orminn langa, hvernig á því standi að eftir allan þennan áhuga og allar þær yfirlýsingar og öll þessi gefnu fyrirheit skuli málin vera í þessu formi.

Þess vegna sagði ég það, herra forseti, og hlýt að undirstrika það og árétta í andsvari, eftir að hv. þm. hefur staðfest þá lýsingu sem ég gaf í ræðu minni, að ábyrgð ríkisstjórnarinnar á stöðu málsins í heild, umhverfisþætti þess hvað samninga við fjárfesta áhrærir, hvað málinu öllu viðvíkur er auðvitað mikil og verður ekkert undan dregin í stöðu þess. Mér fannst hv. þm. í raun lýsa þessu máli og taka vel undir ástandslýsingu mína og ferli málsins frá a til ö. Menn ganga langt í yfirlýsingum um þetta mál en ég er hræddur um að hv. þm. verði að eiga við sitt heimafólk áður en hann kemur hér til þess að kvarta og kveina. Hann getur vafalaust fengið hjálp frá flokksbræðrum sínum og systrum hér í þessu æruverðuga húsi, en svo langt er málið komið að Steingrímur Hermannsson er farinn að leggjast á hinar ýmsu sveifar.