Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:24:50 (1866)

1999-11-18 14:24:50# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Mér er það mikil ánægja að uppfræða hv. þm. Hjálmar Árnason og kenna honum aðeins um stjórnmálasöguna síðustu 20 árin. Ég veit að á fyrri hluta þess tímabils sá hann þessi mál í eilítið öðru ljósi en hann gerir í dag og slæmar og góðar ríkisstjórnir tóku kannski á sig aðrar myndir þá heldur en þær gera í dag, eingöngu vegna þess að hv. þm. var þá í öðrum stjórnmálaflokki, studdi önnur sjónarmið og viðhafði aðrar áherslur í stjórnmálum. En allt gott um það.

Það er ekkert launungarmál, herra forseti, að því miður er það ekki í fyrsta skipti sem stjórnmálamenn hafa uppi stór orð og áform sem þeir geta ekki staðið við. Ég dreg því enga dul á að það urðu mér og flokksmönnum mínum jafnmikil vonbrigði og langflestum eða öllum hygg ég kjósendum í Reykjaneskjördæmi að ekki gekk saman með fjárfestum í Alumax-hópnum á sínum tíma. Það var hins vegar ekki við neina út af fyrir sig að sakast í þeim efnum. Hinir erlendu fjárfestar kipptu að sér höndum á síðasta stigi málsins. Það olli mér miklum vonbrigðum. Það var Jón Sigurðsson sem fór fyrir því máli og ég held að enginn hafi látið sér til hugar koma, hvorki þá né nú, að áfellast hann fyrir áhugaleysi eða slaka verkstjórn á þeim málum heldur þvert á móti. Ég held að allir hafi á þeim tíma í stjórn og stjórnarandstöðu lokið lofsyrði á störf hans.

Það liggur alveg ljóst fyrir líka að rafmagnið átti að koma að austan, svo ég svari nú þeirri spurningu. En það breytir hins vegar ekki því sem við erum að takast á við í dag, að menn eru hér að reyna að efna 20 ára gamalt loforð með málið jafnlaust í lúkunum og raun ber vitni um. Það er hinn kaldi og napri veruleiki málsins, herra forseti, og ég held að hv. þm. hljóti að deila þeim skoðunum með mér á því ástandi í þessum efnum.