Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:26:55 (1867)

1999-11-18 14:26:55# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þessar upplýsingar. Ég minnist þess mjög vel frá þeim árum þegar ég bjó á Suðurnesjum hvernig þáv. hæstv. iðnrh., Jón Sigurðsson, beinlínis lofaði ítrekað í blaðagreinum og á fundum meðal kjósenda í Reykjanesi álveri á Keilisnesi. Og það er reginmunur á þeim vinnubrögðum að lofa einhverju sem jafnvel er vitað að ekki er hægt að standa við eða þeirri kynningu sem hæstv. iðnrh. ávallt hefur leitt núna, þ.e. að það á eftir að semja, en verið er að skapa ákveðinn grundvöll til þess. Og það er þess vegna sem um málið er fjallað á hv. Alþingi núna.

Ég ítreka þakklæti til hv. þm. og ég tek undir það með hv. þm. Jóni Kristjánssyni að mér fannst ræða þingmannsins fara batnandi eftir því sem á leið og í lokin var ég orðinn mjög sammála. Ég deili því með hv. þm. að vera umhverfissinni og framkvæmdamaður. Og því spyr ég hv. þm. Mun hann styðja þá þáltill. sem hér er til efnislegrar umfjöllunar og afgreiðslu á þessu hv. þingi?