Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:32:14 (1870)

1999-11-18 14:32:14# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:32]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var býsna merkileg ástarjátning hjá hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni. Ég átti satt að segja ekki von á jafninnilegum ástarjátningum af hans hálfu í garð þeirra framsóknarmanna því að stundum hefur mér fundist hvína í einmitt af hans hálfu þegar að þeim hefur komið. Þögn hans hefur oftar en ekki sagt meira um til að mynda hjartnæman stuðning hans við hæstv. heilbrrh. sem er nú sveitungi hans. En allt um það. Þetta fannst mér býsna merkileg yfirlýsing. Hitt veit hv. þm. hins vegar jafn vel og ég að á þeim árum sem hann vitnaði til, 1991--1995, vorum við í bullandi mótstreymi efnahagslega. Hann var að vísu ekki kominn hér til þings. Ég bið afsökunar. Hann var auðvitað mættur hér til þings og lagði þessu viðnámi gegn kreppunni gott lið og vékst þar ekki undan. Nú hins vegar blæs vel og kringumstæður eru allt aðrar. Ég skildi hann hins vegar ekki þannig --- hann leiðréttir mig þá --- að hann drægi í efa einbeittan vilja Alþýðuflokksins til að byggja upp á þessum vettvangi eins og öðrum. Eða var hann að gefa til kynna að allt hafi þetta verið sýndarmennska og yfirborð eða er það svo að hans víðsýni og réttsýni hafi týnst einhvers staðar á leið í hinu innilega faðmlagi við Framsóknarflokkinn?