Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 14:35:40 (1873)

1999-11-18 14:35:40# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[14:35]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Við höfum nú teygt lopann nokkuð lengi yfir þessu máli og kannski eðlilega eins og til þess er stofnað af hendi stjórnarflokkanna. Ég var spurður einhvern tímann fyrr í umræðunni fyrir margt löngu hvort afstaða mín til virkjunarinnar væri sams konar og til álvers og ég ætla ekki að víkjast undan að svara því. Álverið fer í umhverfismat samkvæmt þeim lögum sem um það gilda. Enginn hefur dregið það mál inn til Alþingis á neinn hátt. Ég veit ekki til þess að neinir flokkar ætli sér að draga það með lögformlegum hætti hér inn í þingið. Það eru einfaldlega til reglur um framleiðslu af þessu tagi og uppfylli þau fyrirtæki sem ætla sér að koma slíku af stað þær reglur, þá fá þau starfsleyfi.

Auðvitað vitum við að það verður ekki virkjað í Fljótsdal nú ef ekki verður hægt að selja rafmagnið. Ég tel þess vegna að þeir sem lýsa yfir stuðningi við að virkjað verði í Fljótsdal ef jákvæð niðurstaða fæst um umhverfismat, séu líka að lýsa yfir stuðningi við að þessi álverksmiðja verði byggð. Þannig lít ég a.m.k. á það sem ég er að segja um þetta mál, þannig að það sé alveg skýrt. Ég er líka á þeirri skoðun, og ég vil segja það fyrst, að ég vonast til þess að umhverfismat leiði í ljós að hægt verði að virkja þarna. Ég vona það. Ég er ekki viss um það. Ég segi til viðbótar að verði það niðurstaðan að virkja þarna, hvort sem það verður eftir umhverfismat eða eftir þessa skemmri skírn sem hér á að fara fram samkvæmt vilja stjórnarflokkanna, þá geri menn það þannig að stíflan verði þá líka hækkuð þannig að menn fái allt það rafmagn sem til álversins þarf með einni framkvæmd. Ég held að það liggi fyrir nokkuð skýrt að það er skynsamlegasta leiðin og ég vonast þá til þess að menn fari hana.

Ég vil endurtaka að sú staða skelfir mig sem stjórnarflokkarnir eru búnir að koma sér í aftur gagnvart erlendum aðilum til að semja um raforkuverð. Það er staða sem Íslendingar virðast ætla að koma sér í nánast ævinlega þegar á að semja um raforkuverð við útlendinga til stóriðju. Þeir eru búnir að binda sig þannig pólitískt í málinu að það er nánast ekki hægt að bakka út úr því nema að fara út á ystu nöf. Eina vonin sem menn hafa núna er að einn aðili, þ.e. Norðurál, gæti hugsanlega haft áhuga á því reisa hér upp álver líka. Á það er nú vonin hengd, því miður. Það er gífurleg fjárhagsleg áhætta í þessu máli vegna þess hve það er stórt og vegna þess hve efnahagskerfi okkar er lítið. Ég tel það fyrirkvíðanlegt ef aðilar hér á Íslandi, lífeyrissjóðir og aðrir, ætla að leggja eggin sín svona mörg í eina körfu eins og þessa. Ég tel að það hljóti að verða að skoðast bókstaflega út frá hagsmununum og áhættunni hvort það komi nokkuð til greina að menn gangi svo langt í því sem hér hefur heyrst, þ.e. að lífeyrissjóðirnir eigi að leggja svo gífurlega fjármuni inn í eitt mál. Það þarf að skoða mjög nákvæmlega.

Ég vonast til þess að umhverfismatið fari fram að lokum og þá verði umhverfisþáttur málsins skoðaður með öllu málinu ásamt byggðaþættinum, eins og á auðvitað að gera en verður ekki gert eins og þó ætti að gera þegar málið verður meðhöndlað í Alþingi og af nefndum þingsins, vegna þess að ekki er tími eða aðstaða til þess. Ég geri ekki ráð fyrir því að ríkisstjórnarliðar ætlist til þess að nefndir þingsins taki sér þann tíma og leggi þá vinnu í þetta mál sem hefði verið lögð í það ef það hefði verið meðhöndlað eins og á að meðhöndla slík mál að dómi Alþingis.

Ég fór um Austurland í haust. Ég var svo heppinn að geta fengið að fara með iðnn. og umhvn. um þetta svæði. Við ókum þarna um óbyggðirnar. Þar lágu vegir til allra átta. Við fundum tvo græna bletti. Á þeim báðum á að virkja. Það leiðir auðvitað hugann að því að virkjanir eru nú einu sinni þannig að þær taka frá náttúrunni. Ég fyrir mitt leyti komst að þeirri niðurstöðu að það hefði verið mun betra að virkja við Kárahnúka en Fljótsdalsvirkjun. Það var ekki vísindaleg niðurstaða heldur bara mat manns sem kemur einn dag og skoðar þessa tvo staði. En það slær mig að væru menn að meta á eðlilegan hátt virkjunarmöguleika á þessu svæði í dag og væru ekki hengdir upp á málinu eins og það er núna, þá hefðu menn örugglega valið þann kost á undan Fljótsdalsvirkjun, þ.e. að virkja við Kárahnúka.

Forsrh. hæstv. hóf hér umræðuna með eftirminnilegum hætti. Hann gaf upp boltann fyrir stjórnarliðana. Hann hélt því fram að Samfylkingin vissi ekkert hvað hún vildi í þessu máli og hefði enga skoðun á því. Svoleiðis orðaði hann það. Við höfum sett það mjög skýrt fram hvaða skoðun við höfum á þessu máli. Við viljum fá þetta umhverfismat og vonumst til þess að það leiði í ljós að hægt verði að virkja þarna fyrir austan. Hann hélt því fram að það að koma með málið inn á Alþingi væri algjörlega umfram nauðsyn og væri einhvers konar greiði við Alþingi, skyldist mér helst. Ég get ekki litið á það sem greiða við Alþingi að láta fara fram umræðu um málið með þessum hætti. Það eina sem gæti gert þetta mál jákvætt í mínum augum væri að brtt. okkar yrði samþykkt og niðurstaðan yrði sú að þetta mál yrði til þess að alþingismenn fengju tækifæri til þess að greiða atkvæði um það sem deilan snýst um, þ.e. greiða atkvæði um hvort fara eigi fram umhverfismat vegna þessarar virkjunar eða ekki. Þannig getur þetta mál öðlast tilgang. (KHG: Það er komið fram frv. um það.) Það er komið fram frv. um það, já. Við höfum lagt hér fram tillögu líka til þess að tryggja að atkvæðagreiðsla fáist um þetta mál ef það skyldi nú verða einhvers konar slys í nefndum þannig að hitt málið yrði á eftir þáltill. ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. sagði líka að við ættum að taka ákvarðanirnar sjálfir en ekki að víkja okkur undan þeim. Þessi hnúta var send okkur í stjórnarandstöðunni af því að við vildum að umhverfismat færi fram. Til hvers eru lögin um umhverfismat ef menn hafa þá afstöðu í sölum Alþingis að þeir eigi ekki að víkja sér undan að taka á svona málum? Er þá ekki bara rétt að leggja þau af þannig að Alþingi standi í þessu sjálft og að öll mál komi hér inn? Ég bara spyr. Mér finnst að það örli ekki lítið á þeirri afstöðu hér í hverri ræðunni á fætur annarri. Hæstv. forsrh. fagnaði sem ráðherra byggðamála, nú væri byggðinni borgið fyrir austan, mátti lesa út úr ræðu fara hans. Hann var kotroskinn og þó að seta hans sem ráðherra byggðamála hafi verið samfellt niðurlægingartímabil á landsbyggðinni, þá talaði hann eins og það væri einhvern veginn öðruvísi. Hann endaði svo á því að segja að þeir hlytu traust sem ættu það skilið. Sérkennilega fannst mér það kaldhæðið í samhengi við byggðamálin.

[14:45]

Er tilgangur forsrh. kannski öðrum þræði að ljúka ferli sínum sem ráðherra byggðamála með þessari þáltill., svo hann geti varið sig með einhverju þegar menn rifja upp feril hans og þá eyðibyggðastefnu sem ríkt hefur á hans dögum í embætti ráðherra byggðamála? Hann hefur ekki margt til að skreyta sig með. Það skyldi þó ekki vera að hann vonist til að þessi framkvæmd og tillaga Alþingis verði honum til varnar þegar menn rifja upp feril hans?

Mikið hefur verið rætt um byggðamál í tengslum við þetta mál hér. Ég efast ekki um að þetta mál skiptir miklu fyrir byggðir Austurlands ef af þeim framkvæmdum verður. Ég tel hins vegar að umræðan eigi fyrst og fremst að fara fram um deilumálin. Þess vegna hef ég fyrst og fremst rætt um þau, um deiluna milli alþingismanna. Sú deila snýst um hvort fara eigi fram mat á umhverfisáhrifum. Hún hefur tekið mesta rýmið í þessari umræðu.

Ef við ætlum síðan að fara að ræða um byggðamál þá er býsna margt sem þarf að tala um. Hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur ekki af mörgu að státa hvað það varðar. Hún hefur látið síga á ógæfuhliðina án þess að aðhafast í byggðamálum þann tíma sem hún hefur setið. Hún hefur látið það viðgangast að byggðirnar tapi endalaust frá sér lífsmöguleikunum. Fiskveiðistjórnarkerfið sem nú er í gildi gerir þetta að verkum. Menn hafa ekki aðhafst neitt til að koma í veg fyrir að sú þróun haldi áfram. Ég segi: Þeir menn sem tala um byggðamál eins og hv. stjórnarliðar gera, án þess að taka afstöðu til þess máls sem ég var nú að nefna, eru ekki trúverðugir í umræðunni. Á meðan fiskveiðistjórnarkerfið grefur undan sjávarútvegsbyggðunum allt í kringum landið þá eru menn ekki trúverðugir þegar þeir tala um að leysa byggðavandann á Íslandi með því að byggja álver á Austfjörðum þó að það geti leyst byggðavandann á því svæði.

Þess vegna tel ég að byggðaumræðan eigi ekki að vera aðalatriði þeirrar umræðu sem hér fer fram heldur fyrst og fremst umhverfismatið sem er hér deilt um milli stjórnar og stjórnarandstöðu.