Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:04:54 (1875)

1999-11-18 15:04:54# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég segja að nú erum við farin að ræða hlutina á þeim nótum sem ég tel að eigi að ræða þá, að reiða fram rök og tölur eins og hæstv. ráðherra er að byrja að gera. Hann gerir að umtalsefni sérstaklega þá hagfræðinga sem hafa gagnrýnt þessar fyrirhuguðu framkvæmdir og gagnrýnir þá fyrir að leggja rangar forsendur til grundvallar sínum útreikningum. Staðreyndin er sú að þær forsendur sem þeir leggja til grundvallar eru teknar úr veruleikanum og það er þennan veruleika sem við þurfum að ræða en byggja ekki á óskhyggju. Það hefur stundum verið sagt að ég sé ríkisforsjármaður og það er alveg rétt. Ég vil efla almannavaldið og vil geta treyst handhöfum þess valds. En ef farið væri að ræða þessi mál út frá viðskiptasjónarmiðum með arðsemi í huga, þá er ég hræddur um að ríkisstjórnin í heild sinni og þeir sem komið hafa að málum fyrir hennar hönd yrðu allir reknir á stundinni.