Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:08:38 (1878)

1999-11-18 15:08:38# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:08]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að þær tölur sem hv. þm. talar um, þ.e. 60 milljarðar króna í virkjun og álveri, eru 20 milljarða króna fjárfesting á ári að meðaltali á þeim tíma sem framkvæmdirnar standa yfir. Og það eru þær upphæðir sem við þurfum á ári til að viðhalda fjárfestingunni í landinu, til að halda sama atvinnustigi, til að halda sama hagvexti, til að halda kannski sömu lífskjörum. Það er nákvæmlega það sem um er að ræða. Og þegar við tölum um 480 þús. tonna álver, þá erum við að tala um að taka það á mun lengri tíma. Við erum kannski að tala um að taka síðasta áfanga þess í notkun árið 2010. Ef öll þessi áform gengju eftir, þá værum við að tala um að geta verið með samfellda fjárfestingu í orkufrekum iðnaði fram til ársins 2010 upp á 20 milljarða króna á ári. Það er sú fjárfesting sem við þurfum á að halda til að halda atvinnustiginu og hagvextinum og lífskjörum í landinu sem ég var að vonast til að verkalýðsleiðtoginn vildi berjast fyrir að væru há og góð.