Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:10:48 (1880)

1999-11-18 15:10:48# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:10]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi þær athugasemdir sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði við skýrslu Landsvirkjunar, þá er það alveg rétt að þær komu fram í máli hv. þm. og fannst mér vera mjög vel gert. Ég hef setið undir allri þessari umræðu og það eru tveir hv. þm. sem hafa á einhvern gagnrýninn hátt farið ofan í frummatsskýrslu Landsvirkjunar. Ég átti von á því að þeir hv. þm. sem telja sig vera í fylkingarbrjósti fyrir náttúruvernd í landinu og hér sitja, og hafa boðið fram sérstaklega í þeim efnum, færu krítískt ofan í þá hluti. Nei, það eru tveir hv. þingmenn, Össur Skarphéðinsson og Ólafur Örn Haraldsson, sem hafa gert þetta að sérstöku umtalsefni. Ég tek undir þær áhyggjur að vissu leyti sem fram komu í athugasemdum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. En þær eru ekki þess eðlis í mínum huga að þær geri útslagið um að ekki sé óhætt að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta voru athugasemdir sem ég hafði tekið eftir.

Varðandi hinn þátt málsins, sem eru 3 milljarðarnir, þá ætla ég að fá að svara því í seinna andsvarinu.