Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:13:04 (1882)

1999-11-18 15:13:04# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:13]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. má ekki túlka orð mín þannig að ég sé að segja að skýrsla Landsvirkjunar sé gölluð. Ég er hins vegar að segja að það eru auðvitað atriði í þessari skýrslu sem vert er að staldra við og hugsa um. Og nú gefst iðnn. og umhvn. þingsins tækifæri til að kalla alla þá sérfræðinga sem þingmenn vilja til fundar við sig til að fá skýringar á einstökum atriðum og þáttum sem þar koma fram. Síðan verða hv. þm. að gera það upp við sig hvort þeir treysta sér til, á grundvelli þeirra upplýsinga, að leggja mat á málið með atkvæðagreiðslu hér í þinginu.

Varðandi 3 milljarðana sem hér hafa líka verið til umræðu og dregið hefur verið í efa að séu réttir, þá er langeðlilegasta leiðin í því --- ég segi bara einfaldlega, þetta er rétt upphæð sem þarna er um að ræða, við höfum gengið úr skugga um það. Það sem á hins vegar að gera er að kallað verður í Landsvirkjun til fundar við iðnn. þar sem Landsvirkjun verður krafin um skýringu á hvernig þessi upphæð er saman sett. Og til þess er slík umfjöllun í þingnefndunum, það á að gefa almenningi kost á því, eins og hér hefur verið kynnt í dag á blaðamannafundi, að vera í beinu sambandi við iðnn. þingsins og þannig verða líka embættismenn og framkvæmdastjórar fyrirtækjanna kallaðir til fundar og þeir krafnir skýringa.