Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:15:45 (1884)

1999-11-18 15:15:45# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:15]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir leitt að það hefur farið fram hjá mér í umræðunni, sem ég tel mig hafa setið þokkalega vel yfir, að hv. þm. gerði athugasemdir við einstök efnisatriði skýrslunnar. Það er gott og ég vonast til að hv. þm. fái tækifæri til að fylgja þeim athugasemdum sínum eftir þegar kemur að nefndarstarfinu.

Það er ekki nokkur vafi á að hægt er að rannsaka meira. Ég get sagt hv. þm. að ég er eiginlega sannfærður um að ef menn færu af stað með þessa virkjun t.d. árið 2050 þá mundi hún líta einhvern veginn allt öðruvísi út en hún kemur til með að líta út í dag. Við getum haldið áfram að rannsaka, grafa og skoða hlutina alveg endalaust. Út úr því kemur ekki nokkur skapaður hlutur í auknum verðmætum fyrir þjóðina, ekki í auknum verðmætum til að standa undir bættum lífskjörum til framtíðar. Við getum skoðað þetta í hundrað ár enn og aldrei gert nokkurn skapaðan hlut. Af því yrði enginn árangur.