Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:16:49 (1885)

1999-11-18 15:16:49# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Mig langar að spyrja ráðherrann um útkomuna úr dæminu hjá honum. Ef hagfræðingarnir sem vitnað hefur verið til hér gefa sér rangar forsendur þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvaða forsendur gefur hann sér? Hvaða orkuverð, hvaða raunvaxtastig og hver er þá útkoman úr hans dæmi?

Varðandi 3 milljarðana sem margoft hefur verið rætt um og eru stundum 3,2 milljarðar í skýrslu hæstv. ráðherra sem fylgir þáltill. og stundum 3,08 milljarðar, þá vil ég benda þingheimi á, hæstv. forseti, að í ársreikningi Landsvirkjunar, í efnahagsreikningnum er færð til bókar eign vegna Fljótsdalsvirkjunar, vegna stækkunar Búrfells og fleiri atriða upp á 1.416.462.123 kr. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er þetta eignin sem nú er metin í skýrslum upp á 3 milljarða? Ég trúi því ekki að Landsvirkjun geti farið fram á hærri upphæð í skaðabætur en þá sem hún færir sér til eignar í bókum sínum.