Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 15:23:36 (1891)

1999-11-18 15:23:36# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KHG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[15:23]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Þetta hefur verið býsna athyglisverð umræða sem staðið hefur nú á þriðja dag. Ég hygg að í henni hafi tekið þátt um 50 þingmenn. Ég held ég fari ekki með rangt mál þegar ég held því fram að almennari og meiri þátttaka hafi verið í þessari umræðu en nokkru öðru þingmáli síðan ég koma á Alþingi árið 1991. Ég hygg að fleiri þingmenn hafi tekið til máls nú en árið 1992 þegar menn ræddu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Auðvitað eru eðlilegar skýringar á þessu. Annars vegar er málið mjög umdeilt og margir hafa mjög ákveðnar skoðanir á því. Hitt tel ég líka liggja á bak við, þó að menn hafi ekki nefnt það í þessari umræðu, að miklir pólitískir umhleypingar eru um þessar mundir. Það eru umbrot í hinu stjórnmálalega skipulagi og gömul og ný stjórnmálaöfl takast á í þessari umræðu og marka sér sérstöðu hvert gagnvart öðru. Þess vegna held ég að svona margir hafi tekið þátt í umræðunni og lagt svona mikið af mörkum af skoðunum og upplýsingum.

Um málið vil ég í fyrsta lagi segja að lagalegur grundvöllur málsins er algerlega klár. Það að koma á fót orkufrekum iðnaði á Austurlandi með tilheyrandi virkjunum til að gera það kleift hvílir á algerlega klárum lagagrundvelli frá árinu 1981. Að auki hefur mönnum kannski yfirsést til þessa, það sem réttilega kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, fyrrv. ráðherra Alþfl., að í tíð Alþfl. lágu fyrir allar lagalegar heimildir, m.a. í lögum um breytingu á lögum um raforkuver frá í maímánuði 1990, þar sem samþykkt var að heimila Landsvirkjun, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að verja allt að 300 millj. kr. á árinu 1990 til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar og stofnlína til að unnt væri að sjá nýju álveri fyrir raforku árið 1994. Eins var heimilt taka að láni fjárhæð eða jafnvirði hennar í erlendri mynt. Allar lagaheimildir fyrir málinu voru veittar í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem sat árið 1988--1991. Þá var núv. formaður vinstri grænna samgrh.

Ég hef farið yfir þetta mál og það er dálítið fróðlegt, bara til þess að halda því til haga, að það var enginn ágreiningur um málið í stjórnarflokkunum á þeim tíma að undanskildu því að hv. fyrrv. þm. Hjörleifur Guttormsson stóð ekki að samþykkt þeirra heimilda. Allir aðrir þingmenn stjórnarliðsins veittu heimild til að hefja framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun með sérstökum lögum.

Meðal þeirra sem tóku þátt í þinglegri meðferð málsins og mæltu með því að það yrði samþykkt voru hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir með undirskrift sinni á nál. Það er alveg hárrétt hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni að allar lagalegar heimildir voru fyrir hendi og þær eru það enn í dag. Þegar menn settu lög um umhverfismat árið 1993 var þess sérstaklega gætt, eins og ævinlega við svokölluð lagaskil þegar ný lög taka við af eldri lögum, að nýju lögin virki ekki aftur fyrir sig. Það eru engin dæmi um það, herra forseti, að Alþingi ástundi þá lagasetningu að ný lög virki aftur fyrir sig. Í þessu tilviki var þess gætt að nýju lögin, sem sett voru 1993 virkuðu eftir gildistöku laganna en ekki gagnvart því sem leyft var fyrir gildistöku þeirra. Það er alveg ljóst. Allar lagalegar heimildir eru fyrir hendi og hefur ekki verið um það deilt fyrr en núna nýlega.

Ég vil minna á að á síðasta ári, 26. ágúst, segir svo í leiðara Morgunblaðsins, með leyfi forseta:

,,Strangt tekið er Fljótsdalsvirkjun undanþegin lögunum um umhverfismat, þar eð virkjunarleyfi hennar var gefið út árið 1991, skömmu áður en lögin tóku gildi.``

Þannig að Morgunblaðið vefengir ekki þetta.

Í leiðara Dagblaðsins/Vísis 18. maí 1998 segir, með leyfi forseta:

,,Hins vegar var þá einnig samþykkt bráðabirgðaákvæði um að framkvæmdir sem leyfðar voru fyrir samþykkt laganna þyrftu ekki slíkt mat. Löggjafinn greip til þess ráðs að skapa ekki óvissu um stórframkvæmdir sem væru á döfinni.``

Hver skyldi hafa verið ritstjóri DV og skrifað þennan leiðara? Það var hv. þm. Össur Skarphéðinsson sem á síðasta ári skrifaði þetta og vefengdi ekki að svonefnt bráðabirgðaákvæði gætti þess að lögin giltu ekki aftur fyrir sig.

Í þriðja lagi liggur fyrir nýlegt bréf frá skipulagsstjóra ríkisins þar sem hann kveður upp úr með það af sinni hálfu að enginn vafi leiki á því að Fljótsdalsvirkjun sé undanþegin ákvæðum laga um umhverfismat.

[15:30]

Á þeim fundi þegar það bréf var kynnt í umhvn. --- ég vil leyfa mér að upplýsa það --- tók einn hv. þm. formlega til máls til þess að afturkalla fyrri skoðun sína sem fram hafði komið hér í þingsalnum, þar sem sú skoðun var að vefengja að virkjunin hefði þessa lagalegu stöðu. Það var hv. þm. Katrín Fjeldsted sem tók formlega aftur þær efasemdir sem hún hafði látið í ljósi um þessa stöðu.

Einnig vil ég nefna að þó að lögin um umhverfismat hafi ekki verið sett fyrr en 1993 þá giltu önnur lög á undan. Það var ekki svo að virkjunarframkvæmdir eða stóriðjuframkvæmdir sem ráðist var í fyrir gildistöku þeirra laga færu ekki fram eftir neinum settum reglum. Það var nú öðru nær. Það voru ákvæði um hvernig fara ætti að með slíkar framkvæmdir og m.a. ákvæði sem tryggðu aðgang almennings að málinu á umsagnarferli þess áður en ákvörðun var tekin. Þannig vil ég nefna með Fljótsdalsvirkjun að það var auglýst og óskað eftir athugasemdum frá almenningi og öðrum sem vildu láta málið sig varða og það bárust athugasemdir. Það bárust átta athugasemdir.

Ég vil líka nefna að svonefnd Fljótsdalslína frá Veggjafelli að Akureyri sem reisa átti til að flytja rafmagnið frá Fljótsdalsvirkjun og frá Austurlandi skulum við segja, fór ekki í svonefnt umhverfismat samkvæmt lögunum frá 1993. Hún fór í ferli samkvæmt eldri lögum sem þá giltu. Engu að síður var það auglýst, eins og þá var skylt samkvæmt lögum, og það bárust 1.179 athugasemdir. Svo láta menn hér í veðri vaka að þó að ekki sé farið eftir nýju lögunum þá hafi þess ekki verið gætt að almenningur hefði aðkomu að málinu. Öðru nær, þess hefur verið gætt. Það hefur verið farið að öllum lögum og reglum.

Í fjórða lagi vil ég nefna að þrátt fyrir mikla umræðu um þessar virkjunarframkvæmdir þá hefur afstaða fólks til stóriðju nánast ekkert breyst frá árinu 1990. Þá gerði Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands könnun um afstöðu til þess að reisa álver og þá kom í ljós að 67% voru því hlynnt. Nýlega var birt skoðanakönnun frá sömu stofnun þar sem spurt var hvort menn væru jákvæðir gagnvart stóriðju eða ekki og þá voru 63% eða 64% jákvæð. Afstaðan til þessa máls hefur því nánast ekkert breyst á þessum níu árum sem liðin eru. Stuðningurinn við málið er nánast jafnmikill og hann var og reyndar hefur andstæðingum fækkað þannig að fullyrðingar um mikla viðhorfsbreytingu almennings í málinu á þessum áratug hafa ekki sýnt sig í afstöðu þessa sama almennings til stóriðju.

Ég vil líka nefna að það fór fram atkvæðagreiðsla um þetta mál ásamt öðrum í síðustu alþingiskosningum. Stjórnarflokkarnir tveir höfðu mjög skýra stefnu í þessu. Hún lá alveg klár fyrir. Og það lá líka fyrir hvað stjórnarandstaðan vildi í þessu máli. Það var tekist á um málið í kosningunum. Það var kosningamál. Stjórnarflokkarnir fengu 98 þús. atkvæði. Það er nokkuð góð atkvæðagreiðsla. Það má kalla það þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og er eitthvað annað en þessi kennitölusöfnun sem menn hafa hrint af stokkunum nú. Þeir eru svo aumir sem eru að safna undirskriftum að þeir gefast upp á því að safna undirskriftum. Þetta er ekki lengur undirskriftasöfnun. En undirskriftasöfnun felur í sér að menn geta sannað stuðning ákveðinnar persónu við tiltekinn málstað með því að sýna undirskrift undir ákveðinn texta. Menn hafa gefist upp á þessu. Nú safna menn kennitölum. Menn hringja í síma og stimpla inn kennitölu. Það er engin leið að vita hver stimplaði inn kennitöluna. Þetta er kennitölubix, herra forseti. Mér finnst að menn eigi ekki að taka svona sprell alvarlega jafnvel þó að víðfrægur sprellari leiði málið.

Herra forseti. Ég vil segja að það er greinileg breyting í málflutningi stjórnarandstöðunnar frá því sem var þegar álversmálið var til umræðu fyrir nærri tíu árum, eða á árunum 1988--1992, frá því sem nú er. Breytingin er sú að þá var enginn ágreiningur um virkjun. Allir studdu Fljótsdalsvirkjun, allir flokkar og allir þingmenn. En menn höfðu mismunandi skoðun á álverinu. Núna ræða menn um virkjunina en menn segja ekkert voðalega mikið um álverið. Þá töluðu menn um byggðamál og sögðu að þetta væri atvinnuuppbyggingarmál á landsbyggðinni sem yrði að koma til til að stöðva þróunina sem þá var hafin. Núna gera menn lítið úr áhrifum stóriðju á atvinnuuppbyggingu og íbúaþróun þar sem hún er staðsett.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, segir m.a.: ,,Hvaða ávinning hafa Vestfirðingar af álveri á Austurlandi?`` Og hann hristir sig allan. Það er alveg satt. Það hefur ekki mikil áhrif á byggðarlög á Vestfjörðum þó menn byggi álver á Austurlandi. En það hefur áhrif á byggðarlög á Austurlandi, herra forseti. Og þegar menn fara að lýsa yfir andstöðu við álver á Austurlandi af því að það hefur ekki áhrif á byggðarlög á Vestfjörðum þá eru menn búnir að koma sér upp pottþéttri afsökun fyrir því að vera á móti öllu alltaf, því það er ekki til ein einasta aðgerð sem stjórnmálamenn kunna að grípa til sem hefur áhrif alls staðar jafnmikið.

Þá er líka sagt að hér sé um of mikla fjárhagslega áhættu að ræða. Við skulum bara rifja upp hvaða fyrirvara efasemdarmenn um álver höfðu á sínum tíma, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og fleiri. Þeir sögðu: ,,Við styðjum álver ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt, skilyrði um að meiri hluti sé í eigu Íslendinga, að álverið lúti íslenskum skattalögum, og að það sé byggt á landsbyggðinni. Það er höfuðmál og úrslitamál að það sé byggt á landsbyggðinni.``

Allir þessir þættir eru jákvæðir að þessu sinni þannig að þeir sem þá studdu byggingu álvers með þessum skilyrðum geta ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en að styðja álver á Austurlandi, nema þá að þeir hafi algerlega skipt um skoðun í málinu. Og það er það sem þeir hafa gert. Vintri grænir eru nýr stjórnmálaflokkur og þeir hafa ákveðið að vera fullkomlega á móti þessari atvinnuuppbyggingu. Það er út af fyrir sig skoðun en þá verða menn líka að geta þolað að minnt sé á að þeir hafi einhvern tíma haft aðra skoðun áður og þeir verða að geta útskýrt fyrir okkur af hverju þeir eru núna á móti byggingu álvers á Austurlandi þegar þeir voru mjög fylgjandi því 1990 og töldu það úrslitaatriði að svo yrði.