Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:13:27 (1905)

1999-11-18 16:13:27# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:13]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af heldur undarlegum upphafsorðum í ræðu hv. þm. vil ég gera örstutta athugasemd.

Eins og líklega hefur ekki farið fram hjá neinum hv. þm. þá hefur verið að ryðja sér til rúms ný tækni, svokölluð fjarskiptatækni sem opnar óendanlega möguleika á öllum sviðum, þar á meðal fyrir hv. þm. að ná sambandi við kjósendur sína. Það er m.a. þess vegna sem það var rætt í hv. iðnn. þingsins, ekki síst í ljósi þess að þá stefndi í að sú ágæta hv. nefnd fengi til umfjöllunar stórt og viðamikið mál, hvort hv. iðnn. ætti ekki að koma sér upp eigin heimasíðu og reyna að notfæra sér þá nútímatækni sem getur eflt lýðræði í landinu.

Viðbrögð í nefndinni voru jákvæð og engar athugasemdir aðrar en jákvæðar, þar á meðal frá hv. síðasta ræðumanni. Í framhaldi af því sneri ég mér sem formaður hv. nefndar til starfsmanna þingsins og óskaði eftir þessu. Og þá kemur í ljós að nefndasvið og tölvusvið eru langt komin með að móta heimasíður fyrir allar nefndir þingsins og sýna í því, eins og áður, að Alþingi Íslendinga er í fremstu röð hvað varðar tölvutækni. Við stöndum þar fremst af öllum þjóðþingum og það er fagnaðarefni.

15. nóvember sl. er send fréttatilkynning frá hv. Alþingi um þessar heimasíður. Og það er fyrst í dag sem boðað er til blaðamannafundar af hv. iðnn. til þess einmitt að kynna hina nýju tækni. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það er hins vegar óeðlilegt að hv. þm. skuli reyna að gera þetta tortryggilegt. Ég tel að það lýsi kannski frekar en allt annað þeim vanda sem Samfylkingin á í vegna tvískinnungs í þessu máli í ljósi sögunnar og umræðunnar hér.