Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:20:27 (1909)

1999-11-18 16:20:27# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:20]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í fyrradag fjallaði ég um ýmsar hliðar málsins sem hér er á dagskrá. Ég gat örlítið um þá leiksýningu sem virkjunarandstæðingar hafa nú haldi uppi um nokkurt skeið og einnig um fóðurgjöf stjórnvalda í þeirra garð. Þá nefndi ég skoðanakönnun sem kynnt var fyrir nokkrum dögum og einnig ónefnda undirskriftasöfnun þar sem margt bendir til að fólk sé að skrifa undir óútfyllta víxla.

Frá þessari ræðu hefur ýmislegt gerst, m.a. það að einn fjölmiðill hefur gert tilraun til að uppfræða almenning um það sem felst í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þetta tókst því miður ekki betur en svo að strax í dag --- kennslan hófst í gær --- þurfti fjölmiðillinn að leiðrétta hluta af þeim fullyrðingum sem fram komu í gær. Ég tel að þetta muni ekki upplýsa málið frekar en ýmislegt annað sem gert hefur verið ef áframhald verður á öllu því rugli sem því miður hefur orðið í þessum efnum.

Framkvæmdastjóri fyrrnefndrar undirskriftasöfnunar hefur einnig tilkynnt að sett verði upp á heimasíðu söfnunarinnar tilraun til þess að upplýsa um það sem lög um mat á umhverfisáhrifum fela í sér. Vonandi er að vel takist til og fólk verði upplýstara um þessi annars ágætu lög.

Í fyrri ræðu minni kom ég einnig inn á hina lagalegu hlið málanna. Töluvert hefur verið um það fjallað síðan og sérstaklega hér fyrr í dag þegar hv. þm. Tómas Ingi Olrich fjallaði um títtnefnt undanþáguákvæði. Ég vil nota tækifærið og vekja athygli á að með orðum hv. þm. hafa bæði formaður og varaformaður þeirrar umhvn. sem starfaði árið 1993, þegar títtnefnd lög voru samþykkt hér í þingsölum, gefið yfirlýsingu um að það hafi ekki farið fram hjá þeim og þeir trúi vart að það hafi farið fram hjá nokkrum öðrum nefndarmönnum í umhvn. á þessum tíma, hvað í þessu undanþáguákvæði fólst.

Herra forseti. Um hvað fjallar þetta mál? Í einfaldleika sínum fjallar þetta mál um það hvort við erum tilbúin að nýta það tækifæri sem nú gefst til þess að virkja til að byggja upp atvinnulíf á Austurlandi. Þó þetta mál sé í raun svo einfalt hafa umræður í þingsal valdið róti í huga margra Austfirðinga. Margir hafa lítið skilið af því sem komið hefur fram í ýmsum ræðum en hafa þó af mörgum þeirra dregið niðurstöður. Herra forseti, ég held að það sé nauðsynlegt að stikla hér á stóru í sögu þessa máls.

Upplýst hefur verið að Landsvirkjun hafi varið um 3 milljörðum kr. í virkjunarrannsóknir og undirbúning vegna Fljótsdalsvirkjunar. Áhrif á lífríki og náttúrufar norðan Vatnajökuls hafa verið könnuð í aldarfjórðung. Fullyrða má að á fáum ef nokkrum öðrum virkjunarsvæðum hérlendis hafi verið gerðar jafnmiklar umhverfisrannsóknir. Hugmynd að Fljótsdalsvirkjun er síður en svo ný af nálinni. Þróunarsögu virkjunarinnar má rekja nærri hálfa öld aftur í tímann eða til ársins 1954 þegar fyrsta hugmyndin var kynnt.

Vettvangsrannsóknir vegna virkjunarinnar hófust árið 1975 og hafa staðið nær óslitið síðan eða í aldarfjórðung. Árið 1981 fjallaði Náttúruverndarráð um fyrirhugaða virkjun að undangengnum rannsóknum á áhrifum framkvæmda á umhverfið. Náttúruverndarráð samþykkti að leggjast ekki gegn framkvæmdum. Sama ár samþykkti Alþingi lög um raforkuver þar sem veitt var heimild fyrir Fljótsdalsvirkjun.

Þessar framkvæmdir miðuðust við að grafnir væru opnir áveituskurðir um Fljótsdalsheiði þar sem vatni yrði veitt í nýtt miðlunarlón á heiðinni. Á næstu árum var fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun endurhönnuð og stórlega dregið úr áhrifum hennar á umhverfið. Fallið var frá hugmyndum um að opna áveituskurði og ákveðið að veita vatni gegnum jarðgöng. Við þessa ákvörðun var ekki lengur þörf á miðlunarlóni á Fljótsdalsheiði og land sem fer undir vatn minnkar frá 82 í 42 km2.

Náttúruverndarráð fjallaði að nýju um títtnefnda virkjun árið 1991 og fagnaði þeim breytingum sem gerðar höfðu verið. Ráðið sá ekki ástæðu til að leggjast gegn framkvæmdum. Iðnrh. gaf út virkjunarleyfi fyrir Fljótsdalsvirkjun í apríl árið 1991. Í framhaldi af því voru framkvæmdir kynntar með auglýsingum. Alls bárust níu athugasemdir og engar þeirra beindust að Eyjabökkum.

Framkvæmdir hófust síðan vorið 1991. Herra forseti. Það er ástæða til að leggja áherslu á að framkvæmdir hófust árið 1991. En í lok þess árs var framkvæmdum frestað vegna markaðsaðstæðna. Framkvæmdirnar sem hófust árið 1991 gerðu ráð fyrir því að orkan yrði flutt með línum sem lagðar yrðu þvert yfir hálendið að Keilisnesi. Nú hefur verið fallið frá því og væntanleg háspennulína verður lögð niður í Reyðarfjörð.

Herra forseti. Það er augljóst að verulega hefur verið dregið úr skaða á umhverfi með þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið. Annað ekki síður mikilvægt hefur breyst og er ekki síður mikilvægt. Nú ætla menn að reisa álver við Reyðarfjörð, ekki við Keilisnes. Það er ástæða til að vekja athygli á því að ýmsir hv. þm. sem studdu að reist yrði álver við Keilisnes virðast nú í vafa um það að reisa álver við Reyðarfjörð.

Ég sagði áðan að í einfaldleika sínum snerist þetta mál um hvort við vildum nýta tækifærið nú. Öllum er ljóst að það verður ekki virkjað nema orkukaupandi sé til staðar. Þess vegna verðum við að sjálfsögðu að líta bæði til virkjunar og álvers þegar málið er skoðað. Auðvitað er ljóst að það eru átök í þessu máli milli umhverfissjónarmiða annars vegar og hins vegar atvinnu- og byggðasjónarmiða. Í umræðunum hefur verið bent á margt sem tengist umhverfissjónarmiðum og vissulega einnig byggðarsjónarmiðum.

Einu vil ég þó bæta við það sem bent hefur verið á varðandi umhverfissjónarmiðin. Ég tel afar mikilvægt að sérstaklega hv. umhvn. skoði vel það sem snýr að mótvægisaðgerðum sem að sjálfsögðu eru nauðsynlegar og mikilvægt grípa til. Á bls. 134 í umhverfismatsskýrslu Landsvirkjunar segir, með leyfi forseta:

,,Veigamestu mótvægisaðgerðirnar verða vegna gróðureyðingar á Eyjabökkum. Er lagt til að átak verði gert í uppgræðslu og ræktun annarra svæða, þó ekki nauðsynlega í næsta nágrenni virkjunarsvæðisins heldur þar sem slík uppgræðsla er talin skila mestum árangri.``

Hér er afar mikilvægur þáttur í málinu og ég endurtek að afar mikilvægt er að umhvn. vandi sig við þennan þátt málsins.

Ég sagði áðan að hér væri tekist á um umhverfissjónarmið og atvinnu- og byggðasjónarmið. Í því samhengi er rétt að rifja upp að fyrir nokkrum árum var fyrir hönd Byggðastofnunar gerð nokkuð viðamikil rannsókn á þeim vanda sem við er að glíma í byggðamálum. Þar kom m.a. í ljós að eitt af því sem þarf að grípa til ef árangur á að nást er að skapa meiri fjölbreytni í atvinnulífi. Ljóst er að á landsbyggðinni hefur störfum fækkað í frumvinnslugreinum og því miður hefur allt of lítið verið gert til þess að bæta fyrir slíkt. Eins er ljóst að þessi þróun mun að öllum líkindum halda áfram. Þetta segir okkur aðeins hversu mikilvægt er að gripið sé til einhverra ráða til að hafa áhrif á byggðaþróun.

[16:30]

Það er hins vegar ljóst að það mun ekki duga eitt og sér að reisa álver eins og ýmsir andstæðingar þeirra framkvæmda, sem hér er verið að fjalla um, hafa sagt, þ.e að álverið eigi öllu að bjarga. Að sjálfsögðu hugsar enginn þannig og síst á Austfjörðum vegna þess að það liggur ljóst fyrir að álverið eitt mun ekki breyta öllu heldur er afar mikilvægt að það tækifæri verði nýtt til þess að snúa þróun við. Það er ljóst að álverið mun ekki gefa stjórnvöldum frí í byggðamálum og er nýsamþykkt þáltill. um stefnu í byggðamálum fyrir 1999--2001 mikilvægt plagg í þeim efnum. Vissulega hefði margt fleira mátt þar vera en ástæða er til að minna á að sú samþykkt liggur fyrir og fylgst verður með því af fullri einurð að stjórnarflokkarnir standi við það sem þar var samþykkt.

Það hafa ýmsir, herra forseti, samþykkt ályktanir varðandi þetta mál. Ég minni á ályktun sem samþykkt var á þingi Verkamannasambandsins og hér hefur verið lesin. Ég tel nauðsynlegt að tryggja að inn í þinggögn fari ályktun sem gerð var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi 26. og 27. ágúst sl. Ég vil því fá að lesa þá ályktun, með leyfi forseta:

,,Aðalfundur SSA, haldinn í Brúarásskóla á Norður-Héraði dagana 26. og 27. ágúst 1999, ítrekar þá stefnu sambandsins að styðja eindregið áform um virkjanaframkvæmdir á Austurlandi og nýtingu orkunnar í fjórðungnum. Leggur fundurinn áherslu á eftirfarandi í þessu sambandi:

Lög í landinu heimila að ráðist verði í byggingu Fljótsdalsvirkjunar.

Ekkert virkjunarsvæði hefur verið eins ítarlega rannsakað og virkjunarsvæði Fljótsdalsvirkjunar enda mikilvægt að mat á umhverfisáhrifum slíks mannvirkis sé vandlega unnið.

Brýnt er að félagsleg áhrif og umhverfisáhrif virkjunar og iðjuvers á Austurlandi verði vandlega kynnt, sérstaklega verði vandað til kynningar á þeirri skýrslu á umhverfisáhrifum virkjunar sem væntanlega verður lögð fram á næstunni.

Mikilvægt er að framkvæmdir við virkjun og orkufrekan iðnað hefjist hið fyrsta enda hafa áform um slíkt verið uppi á Austurlandi í um 20 ár.

Úttektir sýna að tilkoma orkufreks iðjuvers mun hafa mjög jákvæð áhrif á íbúa- og efnahagsþróun á Austurlandi.

Virkjun og orkufrekur iðnaður á Austurlandi mun án efa verða áhrifamesta byggðaaðgerð sem stjórnvöld eiga kost á að stuðla að um þessar mundir.``

Herra forseti. Í fylgigögnum með þeirri þáltill. sem hér er rædd eru ýmis rök færð fyrir því að væntanlegar framkvæmdir muni hafa jákvæð áhrif á byggðamál á Austurlandi. Ég vil að lokum, herra forseti, tína til nokkur atriði, sérstaklega í ljósi þeirra orða sem nokkrir hv. þm. hafa látið falla um að þetta séu vanhugsaðar byggðaaðgerðir. Ég vil þó áður en ég tíni til rök Nýsis hf., sem fram koma í skjölum sem fylgja tillögunni, geta þess að ljóst er að á ýmsu þarf að taka í þeim sveitarfélögum sem næst verða álveri. Það er hins vegar ljóst að í fararbroddi þeirra sveitarfélaga er atorkufólk sem ekki mun bugast við þau verkefni sem bíða heldur taka á þeim af fullri einurð. Ég er sannfærður um að það mun standast allar þær prófraunir sem á það verða lagðar.

Rökin sem koma fram í samantekt Nýsis eru eftirfarandi, herra forseti: Engar líkur eru á að atvinnulíf á svæðinu skaðist af tilkomu álversins og tengdrar starfsemi. Fólki hefur fækkað í nær öllum byggðarlögum á fjörðunum og í sveitunum sl. 10--15 ár. Þessi byggðarlög geta því auðveldlega tekið við nokkurri fólksfjölgun en í nokkrum þeirra þarf að byggja íbúðarhúsnæði. Hagvöxtur eykst á svæðinu, atvinnutekjur aukast og viðskipti sömuleiðis. Álverið stuðlar að því að ungt, menntað fólk í fjórðungnum fái vinnu við hæfi. Þannig er unnið gegn brottflutningi fólks af svæðinu og meira jafnvægi næst í aldurskiptingu íbúanna. Álver og tengd starfsemi leiða til umbóta í samgöngumálum á Austurlandi og bættrar grunnþjónustu við íbúana. Betri afkoma fólks og fjölgun íbúa leiðir til öflugra menningar- og félagslífs á svæðinu.

Herra forseti. Ef slík byggðarrök duga ekki til stuðnings í þessu máli ræður annað för en hagsmunir fólks í landinu.