Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:39:13 (1913)

1999-11-18 16:39:13# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:39]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. bætir enn í. Nú er talað um peningalegt fúsk. Hv. þm. Pétur Blöndal vakti athygli á því í gær að hv. þm. Ögmundur Jónasson væri nú farinn að hafa hinar mestu áhyggjur af bröskurum þessa lands. Það verður að segjast eins og er að það er ágætt á meðan áhyggjur hv. þm. beinast í þá átt. Ég vona að þær áhyggjur muni ekki reynast á rökum reistar.

Lykilatriðið í málinu er að fjárfestar virðast hafa trú á þessari tilraun. (ÖJ: Það er rangt.) Herra forseti, hv. þm. er ekki að því mér er kunnugt mesti sérfræðingur þjóðarinnar í fjárfestingum, en hv. þm. getur að vísu leynt á sér og það getur vel verið að hann sé meiri sérfræðingur á því sviði en við aðrir hv. þingmenn höfum kynnst. (ÖJ: Það væri kannski rétt að láta málið í mat.)