Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:40:32 (1914)

1999-11-18 16:40:32# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:40]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við þau orð hv. þm. sem féllu hér áðan. Hann vitnaði reyndar í grg. með þáltill. þar sem fjallað er um að græða upp land í stað þess sem sökkt er. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér er talið að til að bæta fyrir náttúrulegt votlendi sem raskað er þurfi jafnvel tvisvar til þrisvar sinnum stærra flatarmál en það sem fórnað er. Þetta álit kemur reyndar frá líffræðingum í Bandaríkjunum og er notað til viðmiðunar af vísindamönnum. Það er vegna þess að náttúrulegt votlendi er miklu dýrmætara en það sem skapað er af manninum.

Ef þarf tvisvar til þrisvar sinnum stærra flatarmál, þá erum við að tala um 54--81 km2 lands sem menn ætla að rækta upp á móti. Ég vil spyrja hv. þm. hvar hann ætli að finna það land.