Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:44:40 (1919)

1999-11-18 16:44:40# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:44]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur nú nokkrum sinnum komið fram í þessum umræðum hvers vegna ekki er hægt að fara í það ferli sem gert er ráð fyrir í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Það er ósköp einfaldlega þannig að þá er málið allt í uppnámi. Ég hef áður sagt það, herra forseti, að lykilatriði þess að ástæða sé til þess að virkja er einhver orkukaupandi. Það er því gjörsamlega út í hött að ætla að fara í virkjun án þess að tryggja slíkt.

Ég hef hins vegar ekki, herra forseti, haft af því áhyggjur þó að skoðanakannanir séu gerðar. Ég notaði að sjálfsögðu skoðanakönnun í máli mínu til að færa rök fyrir því sem ég hef haldið fram, að því miður hafi ekki tekist að upplýsa almenning nægjanlega vel um innihald þessara laga. Ég hef einnig fært rök fyrir því að andstæðingar virkjana hafa því miður nýtt sér slíkt í áróðri sínum.