Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 16:50:14 (1925)

1999-11-18 16:50:14# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[16:50]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á þessum hraða. En við vitum að um styttan ræðutíma er að ræða og ég þarf að koma miklu að og vil í því sambandi benda hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni á skýrslu Byggðastofnunar sem fylgir stóru frummatsskýrslunni um álver við Reyðarfjörð.

Ég ætla að vitna í örfá orð, ekki heilar setningar, úr þessari skýrslu sem sanna það að hér þarf frekari rannsókna við varðandi byggðaþáttinn. Þar stendur, m.a.: Hér þarf frekari rannsókna við. Afla þarf nánari upplýsinga. Í heild má segja að búsetuþættirnir séu ekki hagstæðir álverinu. Hér þarf að leggja á frekara mat. Allir þessi þættir þarfnast nánari skoðunar. Meta þarf áhrif betur. Gera viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við á jákvæðan hátt.

Og að lokum:

,,Ýmsar nákvæmari rannsóknir eru nauðsynlegar ef mat á áhrifum á að vera marktækt. Eðlilegt er að Byggðastofnun komi að þeim rannsóknum.``

Byggðastofnun gefur óyggjandi yfirlýsingu í þessu plaggi um að hér þarf frekari rannsókna við. Byggðaþátturinn er afskaplega óviss í þessu máli.