Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:09:15 (1930)

1999-11-18 17:09:15# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:09]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef vægast sagt áhyggjur af ábyrgðarleysi stjórnarsinna í þessu máli. Ég hef áhyggjur af því að menn skuli setja svona mörg egg í eina körfu, ekki aðeins gagnvart Austfirðingum. Þetta er ekki aðeins óábyrg stefna gagnvart Austurlandi og Austfirðingum. Þetta er engin byggðastefna. (Gripið fram í: Jú.) Nei, hér eru menn að þjóna allt öðrum hagsmunum.

Einnig gagnvart íslensku þjóðinni er verið að setja of mörg egg í eina körfu. Menn ætla á örskömmum tíma að taka, ekki bara tugi milljarða út úr hagkerfinu og beina því inn í þennan farveg heldur er rætt um á þriðja hundrað milljarða. Menn eru að tala um slíkar upphæðir. Fullbúið álverið mun kosta um 120 milljarða og fyrsti áfangi virkjunarinnar um 30 milljarða. Það er óhætt að margfalda það með þremur eða fjórum til að sinna þeirri orkuþörf sem hér er verið að ráðast í. Þetta er fullkomið ábyrgðarleysi.