Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:38:54 (1949)

1999-11-18 17:38:54# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjásson er gamansamur maður en ekki var hann ábyrgur í þessari ræðu. Nú er ég farinn að skilja hvers vegna ríkisstjórnin kemst fram með þetta mál með stjórnarmeirihlutann að að baki sér eins óábyrgur og hann er. Virkjum, virkjum, virkjum, það er framtíðin. Þetta var boðskapur hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Við höfum fært rök fyrir því að þetta sé óráðlegt vegna þess að við séum ekki aflögufær ef við ætlum að verða sjálfum okkur nóg um orku. Ég get fært rök fyrir því að þetta sé óráðlegt af þeim orsökum. Við höfum bent á að þjóðhagslega sé þetta óráðlegt og við höfum leitt til vitnis fjölda hagfræðinga, fjölda fræðimanna, sem að hafa sýnt fram á miklar líkur séu á því að það verði tap, milljarðatap, af þeirri virkjum sem við erum að tala um hér. Við höfum einnig fært rök fyrir því að óráðlegt sé að taka eins mikla fjármuni og hér er gert ráð fyrir að taka út úr efnahagslífinu og beina þeim inn í þennan farveg. Í fyrsta áfanga á að taka 60 milljarða króna. Álverið allt á að kosta 120 milljarða króna og sennilega munu virkjanirnar sem þarf til að knýja það kosta annað eins. Ég hef áhyggjur af því ef að hv. alþingismenn ætla að taka á þessari rökræðu á eins léttúðugan hátt og óábyrgan eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson leyfði sér að gera hér.