Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:47:50 (1954)

1999-11-18 17:47:50# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:47]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þáltill. er hugsuð sem pólitískur stuðningur við mál sem fyrir löngu hefur verið ákveðið og allar lagalegar forsendur eru fyrir. Tillagan er bara viðbót. Fyrir liggur að það er mismunandi hvernig ber að reikna arðsemina af framkvæmdunum. Við vitum ekki nákvæmlega hvers er von í því. Það fer líka eftir því hvaða forsendur menn gefa sér. Það er mismunandi hvað menn ætla að taka sem vexti af eigin fé, hvaða kosti menn eiga til að taka erlend lán o.s.frv. Einnig er þetta spurning um hvernig fjármögnuninni verður hagað.

Það má líka reikna þetta eftir því hvort menn ætla að taka inn gamlar afskriftir, gera eina virkjun og nýta hana og láta hana standa undir álveri eða láta fyrirtækið í heild standa undir því. Ætla menn þá að taka inn í dæmið afskrifaðar virkjanir o.s.frv.? Þetta er mjög flókið mál og ekkert liggur fyrir um hvernig það verður reiknað. Það er líka mjög flókið mál að semja um álver og raforkuverð. Það liggur heldur ekki fyrir að við getum náð neinum slíkum samningum. Það er alveg ljóst. Ég sagði það hér í gær og í fyrradag við umræður að ég væri í þeim hópi sem væri frekar svartsýnn á að okkur tækist það.

En það er svo mikið í húfi fyrir íslenskt efnahagslíf, svo mikið í húfi fyrir íslenskar byggðir að það væri fásinna, ófyrirgefanlegt glapræði ef við nýttum ekki alla þá möguleika sem við hefðum til að reyna að ná samningum. Það er einnar messu virði að reyna að ná þeim, það fer þá ekki lengra. Við munum standa að þessari þáltill. og styðja vilja og tilraun ríkisstjórnarinnar til þess að ná samningum. Við munum skapa grundvöll fyrir að fara í þessa virkjun ef þess er nokkur kostur. Um það snýst þetta mál, herra forseti.