Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:49:49 (1955)

1999-11-18 17:49:49# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:49]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér á að veita pólitískan stuðning við framhald framkvæmda án þess að vitað sé við hvern á að semja og um hvað. Þetta er býsna traustvekjandi. Ég tók eftir því að í umræðum og fyrirspurnum manna um þær niðurstöður sem einhverjir hagfræðingar hafa komist að, um að þetta væri ekki hagkvæm virkjun, að hæstv. iðnrh. svaraði því til að fjárfestar mundu meta það. En hver er fjárfestir í þessari virkjun? Hann er bara einn. Það er Landsvirkjun. Svona svör eru ekki boðleg og ég verð að segja, herra forseti, að þau svör sem menn hafa borið á borð varðandi arðsemi eru ekki þess eðlis að þau geri þessa samþykkt meira traustvekjandi en hún hefur verið. Auðvitað hlýtur Landsvirkjun að krefjast vaxta af eigin fé svipað og aðrir fjárfestar mundu gera. Eða hvað? Gefur hún afslátt af slíku, krefst hún annars? Í þeim dæmum sem ég hef séð hafa menn gefið sér mismunandi forsendur en flestar leiða því miður til þess að þetta verði ekki arðbært. Af því hljótum við að hafa áhyggjur.