Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:52:29 (1957)

1999-11-18 17:52:29# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson talaði um gildi stóriðju, stóriðjustefnu og orkuvinnslu fyrir landsbyggðina. Enginn hefur talað um að ekki ætti að virkja. Spurningin er um hvernig, hvenær og til hvers menn eigi að virkja. Ég vil spyrja hv. þm. af því að hann gerir sér svo vel grein fyrir afleiðingum slíkra fjárfestinga fyrir byggðirnar: Hve stóran þátt telur hann að ákvörðun um gífurlega uppbyggingu á stóriðjusviði á suðvesturhorninu hafi átt í flutningi manna suður? Eru það 1.000 eða 1.200 manns af þeim sem hafa flutt sem eru í allt á þriðja þúsund? Hver er afleiddur kostnaður? Hér á höfuðborgarsvæði tala menn um afleiddan kostnað upp á tugi milljarða. Talað er um 10, 15 milljarða á einu ári, þetta er erfitt að reikna. Eru menn að hugsa málið í þessum dúr? Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, ég vil beina spurningum mínum til hans, virðulegi forseti: Hvernig verður málum háttað varðandi þessa framkvæmd? Er það ekki svo að allt þetta fjármagn leggur sig hér í stjórnsýslunni þar sem hönnunin fer fram, innkaupin á efni, stjórnsýslan o.s.frv.? Ég held að það sé ekkert í hendi sem bendi til að þetta muni styrkja íslenskar byggðir. Ég held þvert á móti, og það hefur komið fram í mínum málflutningi, að svo stór högg skaði landið og byggðaþróunina.