Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:54:22 (1958)

1999-11-18 17:54:22# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:54]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um hvort ég skildi hv. þm. Það var dálítið erfitt. Ég veit hins vegar, herra forseti, að hingað til hafa byggðir landsins verið í varnarstöðu. Íbúum hefur farið fækkandi þar, á Norðurlandi öllu, á Austfjörðum, Vesturlandi og Vestfjörðum. Ég get ekkert fullyrt um hvaða áhrif það hefur að leggja í svo mikla fjárfestingu. Ég hef hins vegar mikla ástæðu til þess að vona, vegna þess sem gerst hefur annars staðar, að mikil og öflug fjárfesting, t.d. á Austfjörðum, gæti haft verulega þýðingu fyrir framtíðarþróun þeirra byggða.

Úr því að fólk getur flutt að norðan og suður þá geta menn alveg eins flutt austur. Það er alveg hugsanlegt og ekkert voðalegt til þess að vita að Austfirðingum fari að fjölga. Það þarf hvort sem er að byggja skóla, vegi og barnaheimili. Þjóðfélagsþegnum fjölgar og ekki er verra að það gerist á Austfjörðum en í öðrum landshlutum. Ég veit þetta og er bjartsýnn þó ég viti að þetta mun ekki leysa öll vandamál byggðarinnar. Ég er fullur bjartsýni á að þessar aðgerðir gefi þessum landshluta nýja von og möguleika sem ég veit að þá sárvantar. Þess vegna vona ég að þetta hafi þann farsæla endi að við náum samningum um raforkuverð. Við getum hafið byggingar, séð Austfirði dafna og fólki fjölga þar. Menn hafa trú á mikilli og stöðugri byggð þar í framtíðinni.