Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 17:57:20 (1960)

1999-11-18 17:57:20# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[17:57]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að allar þær þjóðir sem best hefur farnast hafa lagt gríðarlega á sig til þess að stuðla að jafnvægi byggðar. Norðmenn hafa gert það með mjög góðum árangri, Finnar gera það og Svíar leggja sig nú æ meira fram vegna þess að fólksflóttinn að norðan og suður verður alltaf meiri og meiri. Bandaríkjamenn eru fremstir allra þjóða í að byggja upp og gæta þess að raska ekki byggðum. Þeir eru með stórframkvæmdir og standa að því með einkavæðingu, með áhættufjármagni og setja upp verksmiðjur, flókinn iðnað, einmitt á þeim svæðum sem standa tæpt. Þeir vita hve mikil þjóðhagsleg nauðsyn er fólgin í að halda sem mestu jafnvægi. Menn geta svo deilt um hvort fjölgun um nokkur hundruð manns á Austfjörðum komi að gagni. Er uppgjöfin virkilega orðin svo mikil í mönnum að þeir gefi sér fyrir fram að þetta sé allt saman vonlaust? Ég vona, herra forseti, að svo sé ekki vegna þess að það er sannarlega von. Við eigum að leggja okkur fram til að láta það rætast.