Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:04:24 (1962)

1999-11-18 18:04:24# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:04]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. iðnrh. talaði um þann skaða sem verið væri að vinna á náttúrunni. Það er gott að heyra hann viðurkenna þetta því að hann hefur ekki alltaf gert það. Með öðrum orðum, röksemdin gengur út á það að minni hagsmunir, þ.e. náttúran, víki fyrir meiri hagsmunum. Hverjir eru þessir meiri hagsmunir að mati hæstv. ráðherra? Það eru hin efnahagslegu rök, hin þjóðhagslegu rök og byggðastefnan og byggðamál fyrir Austfirðinga. Ég hef fært rök fyrir því í máli mínu og leitt til vitnis fjölda hagfræðinga, ekki einvörðungu Sigurð Jóhannesson, sem hæstv. ráðherra vitnaði til, heldur aðra hagfræðinga einnig, sem hafa sýnt fram á að hinar efnahagslegu forsendur sem þessar ráðagerðir eru reistar á eru afar veikar og miklar líkur fyrir því að fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun muni leiða yfir okkur stórfellt tap. Og það sem er smám saman að renna upp fyrir þjóðinni er hvílíkt efnahagslegt glæfraspil er hér á ferðinni. Þegar menn leyfa sér að tala um þetta sem byggðastefnu fyrir Austfirðinga, að þetta verði Austfirðingum til góðs, þá leyfi ég mér stórlega að efast um það. Menn eru að leggja til framkvæmd sem hefði það í för með sér að fjórði hver Austfirðingur kæmi til með að vinna við álverið eða í starfsemi því tengdu. Ég hef vakið athygli á því og ítrekað það enn og aftur, að jafnvel álver geta lagt upp laupana og mér finnst það óábyrgt þegar stjórnvöld hafa forgöngu um ráðagerðir sem byggja á því að setja nánast öll eggin í sömu körfuna.