Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:07:52 (1964)

1999-11-18 18:07:52# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að leggja áherslu á að gagnrýni hæstv. ráðherra á forsendur þeirra hagfræðinga sem hér hafa verið leiddir til vitnis í málinu er órökstudd. Þær forsendur sem hagfræðingarnir byggja á eru sóttar í raunveruleikann, þær eru teknar úr raunveruleikanum. Það er hæstv. ráðherra sem er hér með eitthvert óskhyggjutal og við erum að krefjast þess og höfum gert það í umræðunni að menn reyni að nálgast þessi mál af raunsæi. Og ég furða mig á hvílíkt fúsk hér er á ferðinni, hvílíkt peningalegt og efnahagslegt fúsk. Menn ætla að taka á fáeinum árum eða áratugum á þriðja hundrað milljarða króna í þessa ráðagerð, taka það út úr efnahagslífinu, tæta það upp úr lífeyrissjóðum landsmanna, taka það frá einstökum fjárfestum og út úr íslenska þjóðarbúinu, á sama tíma segjast þeir ætla að selja aðrar verðmætar eignir okkar. Landsvirkjun er komin í útsölu. Þeir segjast ætla að selja Landsvirkjun, þeir segjast ætla að selja Landsbankann, þeir ætla að selja Landssímann, þeir ætla að selja Búnaðarbankann. Hvers konar efnahagslegt rugl er þetta eiginlega? Svo þykjast menn vera að bjarga byggðum á Austurlandi með því að setja fjórða hvern vinnandi mann þar inn í álver. Þetta er með slíkum endemum að ég á eftir að trúa því að þetta hljóti samþykki hér á Alþingi.