Framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun

Fimmtudaginn 18. nóvember 1999, kl. 18:11:17 (1966)

1999-11-18 18:11:17# 125. lþ. 29.1 fundur 186. mál: #A framhald framkvæmda við Fljótsdalsvirkjun# þál. 3/125, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 125. lþ.

[18:11]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú stendur yfir vinna við rammaáætlun ríkisstjórnarinnar um mat á virkjanakostum og forgangsröðun þeirra til framtíðar.

Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. iðnrh. --- eflum nú trú þjóðarinnar á því starfi og fellum Fljótsdalsvirkjun undir rammaáætlunina.

Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. iðnrh. --- mörkum þjóðinni sjálfbæra orkustefnu. Frummatsskýrsla um 480 þús. tonna álver á Reyðarfirði liggur nú fyrir. Frestur til að skila athugasemdum rennur út á morgun.

Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. iðnrh. að beita sér fyrir því að sá frestur verði lengdur. Stutt er í að frummatsskýrsla vegna línulagna Fljótsdalsvirkjunar verði tilbúin til kynningar.

Virðulegi forseti. Ég skora á hæstv. iðnrh. að bíða eftir henni og ég skora á hæstv. iðnrh. að sjá til þess að öll þessi stóra framkvæmd fari saman í einum pakka í lögformlegt mat á umhverfisáhrifum.